Velferðarmál

Samfylking Seltirninga vill:

  • Félagslegt húsnæði til þeirra sem það þurfa.
  • Bæta málsmeðferð með þjónustugátt og þverfaglegri nálgun mála
  • Byggja sérhæft heimili fyrir fatlað fólk
  • Útbúa aðgerðaráætlun til að framfylgja nýsamþykktri stefnu um þjónustu við fatlað fólk.
  • Setja á fót þverfaglegt stuðningsnet fyrir einstaklinga í leik og starfi
  • Samræmda þjónustu við börn og foreldra á einum stað

Velferðarþjónustan á Seltjarnarnesi gegnir mikilvægu hlutverki við að tryggja lífsgæði ólíkra hópa bæjarins. Seltjarnarnes er lítið samfélag þar sem við getum haldið utan um alla og boðið þéttriðið öryggisnet þar sem enginn lendir utangarðs. Samfylkingin leggur áherslu á að velferðarþjónustan á Seltjarnarnesi miði að þörfum fólksins, en ekki kerfisins. Hún vill búa til eitt samfélag fyrir alla á Seltjarnarnesi.

Samfylkingin ætlar að beita sér fyrir því að gera málsmeðferð þeirra er sækjast eftir aðstoð félagsþjónustunnar faglegri með stofnun þjónustugáttar sem tryggir að allar umsóknir verði afgreiddar innan þess tímaramma er lög gera ráð fyrir. Tryggja þarf íbúum nauðsynlegar leiðbeiningar, ráðgjöf og aðstoð við umsókn og meðferð máls. Það er Samfylkingunni einnig hjartans mál að koma upp breiðum hópi ráðgjafa hjá félagsþjónustunni svo hægt sé að nálgast hvert mál þverfaglega og taka heildrænt á félagslegum- og/eða persónulegum vanda einstaklingsins hvort sem hann snýr að fjárhagsaðstoð, húsnæðismálum, fjölskyldumálum, uppeldismálum eða sértækt að öldrun, fötlun eða öðru sambærilegu. Tryggja þarf að varðveisla gagna, trúnaður og þagnarskylda sé virt.

Lögð verður áhersla á forvarnir, einkum fyrir börn og ungt fólk. Samfylkingin vill koma á breiðara samstarfi skóla, heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem áhersla er á snemmtæka íhlutun.  Í því skyni viljum við koma á fót þverfaglegu stuðningsneti sem styður við einstaklinga í skóla, leik og starfi. Við viljum tryggja samræmda þjónustu við börn og foreldra á einum stað og auðvelda bæði fagaðilum og fjölskyldum aðgengi að sérfræðingum og úrræðum. Slík þjónusta myndi einnig vinna inn í skólana og vera stuðningur og fræðsla fyrir kennara og starfsfólk skólans.  Markmiðið er að ekkert barn verði útundan á Seltjarnarnesi og allir nái að blómstra á sínum forsendum.

Við munum áfram leggja áherslu á félagslegt húsnæði á þessu kjörtímabili enda er það lögbundin skylda sveitarfélagsins að tryggja að nægt framboð sé af leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Samfylkingin fagnar því að notendastýrð persónuleg aðstoð, NPA, og fyrirkomulag þeirrar þjónustu hjá sveitarfélögum hafi nú verið lögfest í nýju frumvarpi um þjónustu við fatlað fólk. Samfylkingin ætlar að beita sér af krafti í málefnum fatlaðs fólks og tryggja að drög að stefnu á málaflokknum verði fullkláruð með aðgerðaáætlun. Samfylkingin vill tryggja að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til að getað notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við viljum að fatlað fólk eigi kost á fyrsta flokks þjónustu til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess.

Við leggjum mikla áherslu á að byggður verði íbúðakjarni fyrir fatlaða með góðri þjónustu allan sólahringinn. Á sama tíma viljum við bæta kjör starfsfólks í málefnum fatlaðra og stefnum á að minnst 50% starfsmanna í málaflokknum sé með fagmenntun.