Stjórnun og lýðræði

Samfylkingin Seltirninga vill:

  • Ábyrga fjármálastjórnun byggða á sjálfbærum rekstri
  • Fimm ára áætlun um verkefni og forgangsröðun fjármagns
  • Skrá hagsmunatengsl bæjarfulltrúa á vefsíðu bæjarins
  • Vefsíðu sveitarfélagsins og íbúagátt á íslensku og ensku
  • Koma á laggirnar kerfi er upplýsir íbúa um stöðu mála og ferli ákvarðana
  • Birta gögn og skýrslur sem lögð eru fyrir nefndir og ráð og eru ekki háð trúnaði
  • Víðtækt íbúasamráð í fjölbreyttu formi
  • Skýra hlutverk samráðshópa og aðkomu að ákvarðanatöku
  • Þróa ber áfram rafræna vettvanginn Nesið okkar

Samfylkingin leggur áherslu á nútíma rekstur sveitarfélagsins. Jákvæð rekstrarafkoma er ekki nóg ein og sér heldur gerir Samfylkingin kröfu til þess að reksturinn sé sjálfbær. Sjálfbær rekstur hefur það að markmiði að koma á og viðhalda jafnvægi milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta í rekstrinum. Í því samhengi stendur Seltjarnarnesbær frammi fyrir stórum áskorunum á næsta kjörtímabili. Samfylkingin vill leggja fram fimm ára áætlun þar sem útlistað er með skýrum hætti í hvaða verkefni verður ráðist og hvernig fjármagni og björgum verður forgangsraðað.

Fagleg vinnubrögð og gagnsæi í stjórnsýslu bæjarins verður áfram áherslumál hjá Samfylkingunni. Aðgengi að stjórnsýslu bæjarins þarf að bæta enn frekar. Mikilvægt er að koma upp kerfi sem eykur aðgengi íbúa að upplýsingum um stöðu mála og ferli ákvarðana. Miðlun upplýsinga frá stjórnsýslu til íbúa og starfsmanna einstakra stofnana bæjarins þarf að vera greið. Í því skyni er mikilvægt að tryggja að upplýsingar á vefsíðu sveitarfélagsins og í íbúagátt verði bæði á íslensku og ensku. Samfylkingin vill til viðbótar auka gagnsæi í störfum nefnda og ráða bæjarfélagsins með því að birta gögn sem unnið er með eða kynnt eru og ekki eru bundin trúnaði. Sem lýðræðislegt aðhald vill Samfylkingin einnig að bæjarfulltrúar verði skyldugir til að skrá hagsmunatengsl sín og birta á heimasíðu bæjarfélagsins.

Víðtækt samráð ber að hafa við íbúa um öll þau málefni er þá snerta. Samfylkingin leggur áherslu á að beint íbúalýðræði verði haft að leiðarljósi við stefnumótun og áætlanagerð þar sem  lagt verði upp með að sækja ólík sjónarmið íbúa og hagsmunaaðila m.a. í gegnum íbúafundi og rafrænar leiðir og þau höfð til hliðsjónar við afgreiðslu og ákvarðanatöku. Efla ber ungmennaráð og öldungaráð í þessu samhengi með því að skýra hlutverk þeirra og ábyrgð og aðkomu að ákvörðunum. Halda ber áfram að þróa verkefnið Nesið okkar.