Samþykktir

1.gr.

Nafn félagsins er Samfylking Seltirninga. Heimili þess og varnarþing er á Seltjarnarnesi.

2.gr.

Tilgangur félagsins er að vera upplýsandi og stefnumarkandi vettvangur í anda lýðræðis, jafnréttis, kvenfrelsis og félagshyggju.

3.gr.

Megimarkmið félagsins eru:

–          að hefja sjónarmið lýðræðis, kvenfrelsis, félagshyggju og jafnaðar til vegs í þjóðfélaginu

–          að tryggja samstöðu félagsmanna og bæjarbúa með því að standa fyrir skipulögðum umræðum um málefni bæjarins

–          að vera bakhjarl og starfsvettvangur fyrir kjörna fulltrúa félagsins í bæjarstjórn, nefndum og ráðum bæjarfélagsins

–          að standa fyrir útgáfu blaða og bæklinga og öðru kynningarstarfi til að koma stefnumálum og sjónarmiðum félagsins á framfæri.

–          að undirbúa framboð og velja frambjóðendur Samfylkingarinnar til bæjarstjórnar annaðhvort undir merkjum Samfylkingarinnar eða í samstarfi við önnur framsækin stjórnmálaöfl.

4. gr.

Stofnaðilar félagsins eru þeir einstaklingar,16 ára og eldri, sem aðhyllast stefnu þess og markmið og skrá sig á stofnfundi. Allir skráðir félagar njóta fullra félagsréttinda.

5.gr.

Stjórn félagsins skal skipuð 5 fulltrúum og 2 til vara. Skal hún kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður skal kjörinn  sérstakri kosningu, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund og velur úr sínum hópi varaformann, gjaldkera, ritara, og meðstjórnanda. Stjórn skal annast félagatal Samfylkingarinnar og skal félagatalið, eins og það liggur fyrir hálfum mánuði fyrir aðalfund, teljast rétt kjörskrá vegna kosniganna á aðalfundi.

6.gr.

Stjórnarfundir teljast löglegir ef þeir eru boðaðir með minnst sólarhrings fyrirvara og meirihluti aðalstjórnar er viðstaddur. Varamenn skal jafnan boða á stjórnarfund og taka þeir sæti í forföllum aðalmanna. Varastjórn hefur málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum en er heimilt að greiða atkvæði um þau mál sem til afgreiðslu eru. Haldin skal fundargerð á stjórnarfundum og samþykktir og ákvarðanir stjórnar færðar til gjörðabókar.

7.gr.

Aðalfundur ákveður félagsgjöld.

8. gr.

Meirihluti stjórnar skuldbindur félagið með bókaðri ákvörðun á stjórnarfundi. Gjaldkeri er prókúruhafi á reikninga félagsins og skal hann árita alla reiknina og önnur útgjöld félagsins áður en greiðsla fer fram. Samþykki gjaldkeri ekki ráðstöfun stjórnar á fjármunum félagsins skal þegar í stað boða til félagsfundar og ákvörðun stjórnar borin undir hann.

9. gr.

Stjórnin boðar til félagsfunda og skulu þeir boðaðir með minnst þriggja daga fyrirvara.. Stjórn er skylt að boða til fundar ef minnst 1/5 hluti skráðra félagsmanna sendir stjórn skriflegt erindi og tilgreini fundarefni.

10.gr.

Aðalfund félagsins skal halda í febrúarmánuði ár hvert með minnst viku fyrirvara. Fundinn skal boða bréflega eða með netpósti. Liggi mikið við er stjórn félagsins heimilt að boða til auka aðalfundar. Fastir liðir aðalfundar skulu vera:

* Skýrsla stjórnar og nefnda eftir því sem við á

* Lagðir fram reikningar

* Lagabreytingar, hafi tillögur borist og verið kynntar, sbr. 11. og 12. gr

* Kosning formanns og stjórnar

* Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

* Önnur mál

11.gr.

Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi, enda sé rétt til hans boðað. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en 15. september og þær sendar út með fundarboði. 2/3 hluta greiddra atkvæða þarf til að samþykkja tillögu um lagabreytingar.

12. gr.

Félaginu verður því aðeins slitið að tillaga þess efnist berist stjórn með eins mánaðar fyrirvara fyrir aðalfund. Skal hún þá kynnt félagsmönnum með a.m.k. hálfs mánaðar fyrirvara fyrir næsta aðalfund þess. Til þes að slíta félaginu þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á tveimur fundum og skal sá fyrri þeirra vera aðalfundur. Eigi skal líða skemmri tími en 6 vikur milli fundanna og eigi lengri en þrír mánuðir.

Samþykkt á stofnfundi, 22.11. 2000.
Samþykkt með breytingum á aðalfundi, 04.10. 2012