Stefna 2010-2014

Eitt samfélag fyrir alla

Samfylkingin á Seltjarnarnesi bauð í fyrsta skipti fram lista til sveitarstjórnarkosninga í maí 2010 undir merkjum jöfnuðar, réttlætis og samhjálpar. Stefna flokksins í málefnum bæjarfélagsins er birt hér fyrir neðan.

Seltjarnarnes er gott samfélag en í núverandi efnahagsþrengingum reynir verulega á samheldni og samstöðu í bæjarfélaginu. Velferð fjölskyldunnar, barna, aldraðra og annarra sem eiga undir högg að sækja er eitt mikilvægasta verkefnið við þessar aðstæður. Afar brýnt en um leið  vandasamt er að tryggja þessa viðkvæmu hagsmuni nú á þeim tímum þegar sparnaður og hagræðing eru óhjákvæmileg. Við viljum fara vel með fjármuni bæjarfélagsins en um leið vinna út frá réttlátri forgangsröðun og gæta þess að niðurskurður bitni ekki  of harkalega á þeim sem síst skyldi. Jafnframt þarf að standa vörð um mikilvæga þjónustu sem byggð hefur verið upp á undanförnum árum.

Fækkað hefur í sveitarfélaginu á kjörtímabilinu. Góð tækifæri til uppbyggingar hafa ekki verið nýtt eins og Hrólfskálamelur er gott dæmi um. Samfylkingin vill að sveitarstjórnin móti skýra framtíðarstefnu í skipulagsmálum, velferðarþjónustu og fjármálum svo ungar fjölskyldur vilji og geti búið í bæjarfélaginu. Skipulags- og umhverfismál eiga að auka lífsgæði og stuðla að fjölbreyttri íbúasamsetningu, góðum bæjarbrag og sjálfbærni samfélagsins. Markvisst þarf að vinna að framtíðarverkefnum í nýsköpun og atvinnu.

Samfylkingin á Seltjarnarnesi vill eitt samfélag fyrir alla:

 •  Við viljum að hagræðingu, endurmati og forgangsröðun í anda jafnréttis og jöfnuðar verði beitt í rekstri til að mæta minni tekjum bæjarfélagsins
 • Við viljum ná fram sparnaði með því að endurskoða yfirbyggingu og stjórnkerfi bæjarins og færa nær því sem eðlilegt er miðað við stærð. Við viljum að gjaldskrár bæjarins hækki ekki umfram verðlagshækkanir
 • Við viljum að framkvæmdir bæjarins séu atvinnuskapandi verkefni
 • Við viljum að leitað verði allra leiða til að snúa við íbúaþróun á Seltjarnarnesi með lausnum í húsnæðismálum ungra fjölskyldna
 • Við viljum að strax verði gengið til samninga við ríkið um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða sem ekki geta búið heima
 • Við viljum að umönnun aldraðra verði styrkt með samtvinnun heima- og félagsþjónustu
 • Við viljum standa vörð um menntun barnanna í leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla bæjarins
 • Við viljum að íþróttamannvirki bæjarins og útivistarsvæði nýtist öllum bæjarbúum til íþróttaiðkunar og heilsubótar
 • Við viljum að Seltirningar sem þurfa á félagslegu húsnæði að halda þurfi ekki að bíða mánuðum eða árum saman eftir úrlausn
 • Við viljum að Seltirningum af erlendum uppruna séu tryggð jöfn tækifæri á við aðra íbúa
 • Við viljum að bæjarfélagið styðji með fjölbreyttum hætti við menningarlíf bæjarbúa
 • Við viljum vernda náttúruperlur og menningarminjar Seltjarnarness – enga byggð eða röskun á Vestursvæðunum
 • Við viljum efla verulega samvinnu við önnur bæjarfélög á höfuðborgarsvæðinu um byggðaþróun, samgöngur og umhverfismál
 • Við viljum að lýðræðisleg vinnubrögð, gagnsæi og samráð við íbúa einkenni stjórnsýslu bæjarins
 • Við viljum að tekin verði upp ný vinnubrögð í skipulagsmálum sem byggist á nánu samráði við íbúa og samfellu í vinnu frá hugmynd til mótaðrar tillögu

Fjölskyldan og menntun barnanna

Eitt stærsta verkefni sem Seltjarnarnes stendur frammi fyrir er að styrkja  menntun barnanna okkar og félagslega velferð bæjarbúa, jafnt ungra sem aldinna. Skólamálin eru stærsti málaflokkur Seltjarnarnesbæjar og skiptir öllu máli að vel sé staðið að menntun barnanna okkar með velferð og framtíð þeirra í huga, hvort sem um er að ræða leik- eða grunnskóla. Börnin eiga að fá tækifæri á að dafna og blómstra innan skólakerfisins þar sem tillit er tekið  til þarfa einstaklingsins til þroska og haldgóðrar menntunar. Öllum á að líða vel í skólanum, bæði nemendum og starfsfólki. Skólarnir eiga að vera sniðnir að þörfum nemenda og öll börn eiga rétt á þjónustu.  Fjölbreyttir kennsluhættir og skapandi skólastarf einkenna góðan skóla.  Efla gagnrýna hugsun og umræðu um siðferði með börnum og unglingum.

Samfylkingin leggur ríka áherslu á að grunn- og stoðþjónusta sé ekki skert við þá einstaklinga sem þurfa á henni að halda og hefur verið í uppbyggingu á undanförnum árum.

Einelti á ekki að líðast í skólunum eða íþróttahreyfingunni.  Bregðast þarf við einelti með samstilltu átaki þegar það kemur upp.

Að ný mennta- og æskulýðsstefna fyrir 2-18 ára verði unnin í víðtæku samráði og framkvæmdaáætlun um framkvæmd hennar.

Að hagur barnafjölskyldna verði eins og best gerist annars staðar.

 Íþróttir fyrir alla

Samfylkingin leggur áherslu á að íþróttir eru fyrir alla og fjölbreytileika hvað varðar hreyfingu og útivist fyrir alla aldurshópa. Íþrótta- og tómstundastarf er mikilvægur þáttur í lífi og uppeldi barnanna og nauðsynlegt að vanda vel til. Íþróttastarf er  öflugt á Seltjarnarnesi og  samstarf og samfella á milli skóla og Gróttu varðandi íþróttaiðkun er til fyrirmyndar. Leggja þarf áherslu á að börn hafi jöfn tækifæri til íþróttaiðkana á Seltjarnarnesi. Hreyfing er holl fyrir alla og eins og rannsóknir sýna stuðlar hreyfing að auknu heilbrigði og betri andlegri líðan. Bæjarfélagið hefur lagt fjármuni í uppbyggingu íþróttamannvirkja sem eiga að nýtast öllum bæjarbúum.

Að stuðlað verði að aukinni hreyfingu í gegnum skóla- og íþróttastarf sem öll ungmenni eigi aðgang að.

Eldri borgarar

Samfylkingin leggur áherslu á að eldri borgarar njóti góðrar þjónustu sem er sniðin að þeirra þörfum. Gera á eldri borgurum kleift að fá að vera eins lengi heima hjá sér og þeir óska og koma til móts við þarfir þeirra eins og við á.  Leggja þar áherslu á fjölbreytta búsetumöguleika og góða heimaþjónustu og stuðla að félagslegri virkni. Ganga þarf strax til samninga við ríkið um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir eldri Seltirninga sem ekki geta búið á eigin heimili lengur. Öllu skiptir að eldri borgarar geta verið í heimabyggð í nálægð við ættingja og vini.

Skipulagsmál

Samfylkingin leggur ríka áherslu á að ný vinnubrögð verði viðhöfð í skipulagsmálum með hagsmuni allra bæjarbúa að leiðarljósi. Við viljum að víðtækt samstarf sé haft við bæjarbúa þegar kemur að skipulagsmálum í þeirra nærumhverfi og að fagleg vinnubrögð verði ástunduð. Tryggja þarf tengsl og samskipti við þá sem málin varða frá byrjun með samfellu í hugmyndavinnu sem byggir á íbúunum sjálfum, bæjaryfirvöldum og fagfólki. Allir íbúar þurfa að fá raunveruleg tækifæri til að fá innsýn og móta afstöðu sína. Bæjarstjórn þarf að tryggja að Skipulags- og mannvirkjanefnd fái fullt svigrúm til að ljúka faglegum undirbúningi að ákvarðanatöku án inngripa pólitískra fulltrúa.

Á næstu árum þarf að halda áfram endurskoðun á deiliskipulagi margra hverfa. Við þá vinnu er kjörið tækifæri að koma á nýjum leiðum til að efla samráð við íbúa og samstarf íbúa innan hverfa. Með faglegri vinnubrögðum verður hægt að endurvekja trú íbúanna á stjórn sveitarfélagsins í skipulagsmálum. Hið sama gildir um endurskoðun á skipulagi Eiðistorgs og miðsvæðisins. Nauðsynlegt er að fá fram nýja grunnhugsun fyrir nýtingu þess svæðis sem getur haft mikil og jákvæð áhrif  á samfélagið á Seltjarnarnesi.

Efla þarf verulega samvinnu við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu  og móta sameiginlega stefnu um landnotkun, byggðaþróun, samgöngur og umhverfismál.

Umhverfi

Sérstaða Seltjarnarness er mikil hvað varðar nálægð við náttúruna. Samfylkingin á Seltjarnarnesi vill standa vörð um náttúruperlur bæjarins og þær menningarminjar sem svæðið býr yfir. Vestursvæðin eiga að fá að standa óhreyfð og tryggja þarf að þar verði ekki byggt.

Samfylkingin vill að beita sér fyrir því að til verði útivistarsvæði sem sniðið er að þörfum barna og unglinga. Það þarf einnig að gera markvissar úrbætur vegna umferðarmála í kringum skólana og ljúka við göngu- og reiðhjólaleiðir innan Seltjarnarnes. Mikill fjöldi fólks nýtir sér náttúru og umhverfi á Seltjarnarnesi sér til heilsubótar og ánægju.  Koma þarf til móts við þarfir þess m.a. með því að fjölga vatnstönkum og setja fleiri ruslatunnur á gönguleiðir.

Félagsleg velferð

Eitt af grunngildum Samfylkingingarinnar er jöfn tækifæri fyrir alla óháð efnahag. Allir eiga að hafa tækifæri til að þroskast og dafna í sínu umhverfi. Börn, fatlaðir og aldraðir eru þeir hópar sem verst verða úti í efnahagsþrengingum. Samfylkingin á Seltjarnarnesi leggur mikla áherslu á að veitt sé þjónusta sem stuðlar að jöfnuði fyrir alla íbúa. Huga þarf sérstaklega að þeim sem standa höllum fæti og vernda og þróa þjónustu við þann hóp. Þá þarf félagslegt húsnæði að endurspegla eftirspurn. Fólk af erlendum uppruna þarf að fá þjónustu sem miðar að þörfum þess til að geta tekið þátt í samfélaginu, eins og móðurmáls – og íslenskukennslu og öfluga upplýsingagjöf.

Lýðræði og stjórnsýsla

Lýðræðisleg vinnubrögð og gagnsæi er krafa okkar til stjórnsýslu bæjarins. Þegar kemur að ákvörðunartöku um málefni sem snerta íbúa bæjarins á að hafa víðtækt samráð við þá hópa sem málefnin snerta. Það þarf að tryggja að sátt ríki um ákvarðanir og að íbúar séu að fullu upplýstir um stöðu mála. Samfylkingin leggur áherslu á að lýðræði og opin stjórnsýsla sé höfð að leiðarljósi. Upplýsingar séu aðgengilegar og miðlun þeirra frá stjórnsýslu til íbúa og starfsmanna einstakra stofnana bæjarins sé greið.

Ábyrg fjármálastjórnun

Brýnt er að gæta aðhalds í rekstri og stjórnsýslu bæjarins með það að leiðarljósi að tryggja þjónustu við bæjarbúa og að engar hækkanir verði á  þjónustugjöldum umfram verðlagshækkanir. Samfylkingin telur að hægt sé að ná fram sparnaði með því að endurskoða yfirbyggingu og stjórnkerfi bæjarins og færa hana nær því sem er eðlilegt er miðað við stærð. Þá þarf að skilgreina verkefni bæjarins út frá mikilvægi þeirra og tryggja að hagræðing eða niðurskurður bitni ekki á þeim sem síst skyldi. Það þarf ávallt að gæta þess að velferðarþjónustu sé ekki stefnt í hættu. Afleiðingarnar geta orðið harkalegar. Það þarf að endurmeta framkvæmdir á vegum bæjarins og miða að því að auka atvinnuskapandi verkefni s.s. framhald á byggingu Nesstofu, byggingu hjúkrunarheimilis og viðhaldsverkefni.