Fréttir

Samfylking Seltirninga lýsir yfir fullum stuðningi við Grunnskóla Seltjarnarness

Undirritaðir fulltrúar Samfylkingar Seltirninga harma framgöngu stjórnmálamanna í opinberri gagnrýnni sinni á Grunnskóla Seltjarnarness og lýsa yfir fullu trausti á skólann og stjórnendur hans. Þau orð sem fallið hafa um að skólinn fái falleinkunn og að kennarar í Grunnskóla Seltjarnarness hvetji hvorki né styðji við nám barna á Seltjarnarnesi eiga við engin rök að styðjast. 

Sá ágreiningur sem upp kom við útskrift 10. bekkinga vorið 2019 er í skýru ferli innan bæjarins og skólans og hafa kennarar og skólastjórnendur unnið hörðum höndum að því að bæta ferla og auka gagnsæi námsmats í kjölfar ábendinga. Það er ljóst að það voru atriði í námsmatinu sem þörf var á að uppfæra og að skólinn hafði getað mætt ábendingum foreldra fyrr. Bleiki fíllinn í málinu er þó sá hversu illa ráðuneyti menntamála hefur fylgt nýju námsmati eftir og hafa hvorki kennarar fengið nægilegan aðlögunartíma né sveitarfélög fengið greiðslur til að borga fyrir þær þúsundir vinnustunda sem farið hafa í að túlka nýja námsskrá og seinna nýtt námsmat. Allir kennarar landsins vinna við að leysa þrautina í stað þess að fá skýr fyrirmæli og njóta aðstoðar sérfræðinga sem styðja við innleiðinguna.

Það hefur verið illa haldið utan um þetta mál eftir að það komst á borð stjórnmálamanna og hefur það bitnað á öflugum kennarahópi Grunnskóla Seltjarnarness og því góða starfi sem þar er unnið. Nú hefst vinna við að ná sáttum, draga lærdóm og halda áfram að þróa öflugt skólastarf á Seltjarnarnesi í sátt og samstarfi kennara, nemenda, foreldra og stjórnenda bæjarins.

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi
Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi
Hildur Ólafsdóttir – Fulltrúi XS í skólanefnd