Bókanir og tillögur

Samfylking Seltirninga leggst gegn sölu á Lækningaminjasafninu

Bókun Samfylkingar Seltirninga sölu á Lækningaminjasafninu

Samfylkingin Seltirninga ítrekar fyrri bókun og afstöðu varðandi sölu á Lækningaminjasafninu. Húsið hefur alla burði til þess að verða stolt og prýði bæjarins. Við leggjumst gegn því að húseignin verði seld til þriðja aðila. Það er okkar skoðun að bærinn eigi að eiga húsið og leigja undir skilyrtan rekstur. Þar mætti sameina safn, veitingasölu, upplýsingamiðlun til ferðamanna og aðra þjónustutengda starfsemi. Hefur húsið á síðustu árum hýst marga merka menningarviðburði og þegar stimplað sig inn sem fyrsta flokks viðburðastaður á höfuðborgarsvæðinu.

Við styðjum það að unnið verði verðmat á húseigninni. Við leggjum ennfremur til að unnið verði nýtt mat á aðgerðum og kostnaði sem þarf til að koma húsinu í lag. Til viðbótar að framkvæmt verði mat á því hvaða menningarlegu, félagslegu og hagrænu áhrif full starfsemi í Læknaminjasafninu og á safnasvæðinu í heild, hefði á bæinn og samfélagið.

Við teljum einnig að Lækningaminjasafnshúsið geti verið hornsteinn í gerð ferðamálastefnu og uppbyggingu þjónustu við íbúa og ferðamenn þar sem saman koma fleiri hús á svæðinu svo sem Nesstofa og Lyfjasafnið en saman mynda þessi hús sérstöðu í safnaflórunni á landsvísu.

Guðmundur Ari Sigurjónsson- Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga