Bókanir og tillögur

Rekstur í járnum. Hvers vegna?

Bókun N og S lista um fjárhagsáætlun Seltjarnarnessbæjar fyrir árið 2019

Rekstur í járnum. Hvers vegna?

Við lestur fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2019 er fyrst og fremst áberandi hversu naumur fjárhagur bæjarins er. Afgangur bæjarsjóðs er áætlaður um 22 milljónir króna, sem nemur um hálfu prósenti af heildarútgjöldum bæjarins. Ljóst er að ekki má mikið útaf bera til að reksturinn verði neikvæður og skuldasöfnun bæjarsjóðs haldi áfram.

Við skoðun áætlunarinnar verður ljóst að ekki er fyrirséð að bærinn sinni á árinu 2019 eðlilegu viðhaldi á eignum sínum, bærinn hækkar allar gjaldskrár á bæjarbúa svo sem leikskólagjöld, gjöld fyrir frístundastarf, heimaþjónustu og tómstundastarf aldraðra. Raunlækkun er til félagsmála milli ára þrátt fyrir aukna þjónustuþörf og upplýsingar frá félagsmálastjóra um að þörf hefði verið að hækka útgjöld til málaflokksins milli ára.

Það stingur einnig í stúf hversu lítið af þeim fjárfestingum sem settar voru inn í áætlun 2018 hafa verið framkvæmdar og birtast þær nú aftur fyrir árið 2019. Árið 2018 voru áætlaðar 125 milljónir í byggingu sérbýlis fyrir fatlað fólk sem ekki eru hafin. Nú eru settar 100.000.000 í verkefnið án þess að búið sé að taka endanlega ákvörðun um staðsetningu og ljúka skipulagi fyrir verkefnið. Viðhald á klæðningu Mýrarhúsaskóla var á áætlun 2018 60 milljónir en birtist nú aftur fyrir árið 2019 sem 50 milljónir.

Eðlilegt er að spurt sé hvernig standi á því að rekstur bæjarfélagsins sé svo naumur, nú þegar efnahagsuppsveifla hefur verið viðvarandi í landinu undanfarin sjö ár?

Til að allrar sanngirni sé gætt, er rétt að hafa á því orð að bærinn er að fara í gegn um sögulegt breytingartímabil. Barnafjölskyldum hefur fjölgað mikið í bænum undanfarið og því fylgja vaxtarverkir fyrir sveitarfélög. Þannig hækka framlög til fræðslumála um rúmar 300 milljónir, sem mikið til er tilkomið vegna fjölgunar barna.

Þetta ástand sem bæjarstjórn horfist nú í augu við er tilkomið vegna fyrirhyggjuleysis. Bæjarstjórn hefði mátt vera ljóst þegar árið 2014 að framundan væri mikil fjölgun barnafólks. Þá þegar hefði þurft að gera ráðstafanir til þess að undirbúa þessa fjölgun, með nauðsynlegum áformum.

Meirihluta bæjarstjórnar, sem verið hefur sá sami frá miðri síðustu öld, hefur skort framtíðarsýn og fyrirhyggju til að viðhalda því þjónustustigi sem fólk sem býr í bænum gerir ráð fyrir.

Á kjörtímabilinu má búast við því að Seltjarnarnes verði svo að segja fullbyggt. Áframhaldandi andvara- og fyrirhyggjuleysi má ekki vera leiðarstef komandi ára. Bærinn verður að vinna áætlanir sínar um uppbyggingu þjónustu fyrir þann fjölda fólks sem mun að lokum byggja bæinn af kostgæfni og yfirvegun. Áframhaldandi lausatök og áberandi vandræðagangur verður ekki bæjarbúum til heilla.

Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga