Bókanir og tillögur

Samfylkingin og Neslistinn gagnrýna nýtt skipurit bæjarins

Posted on

Meirihluti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti  nýtt skipurit bæjarins á bæjarstjórnarfundi þann 8. september sl. Bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar greiddu atkvæði gegn hinu breytta skipuriti með eftirfarandi bókun:

„Undirrituð, Bæjarfulltrúar Neslistans og Samfylkingarinnar hafa kynnt sér tillögu Capacent að nýju skipuriti bæjarins og telja ekki grundvöll á þessum tímapunkti að staðfesta tillöguna. Gögnin eru á engan hátt nægilega upplýsandi til að hægt sé að taka slíka veigamikla ákvörðun. Engar tölulegar upplýsingar liggja til grundvallar svo dæmi séu tekin og skortir rökstuðning á einstaka liðum. Þegar kemur að svo áhrifamiklum breytingum er varða bæjarfélagið þarf að skoða málin ofan í kjölin með hagsmuni bæjarfélagsins að leiðarljósi og hagræðingu í huga. Umræður um þetta nýja skipurit hefur verið af mög skornum skammti og liggur ekki ljóst fyrir hverju það á að skila. Undirrituð leggja áherslu á að vinna við nýtt skipurit sé unnin á faglegum forsendum og endurspegli stærð og umfang bæjarins. Að vandað sé til slíkrar vinnu svo að ávinningur verði af þessum breytingum. Undirrituð leggja til að stofnað verði vinnuteymi er kemur að vinnu við nýtt skipurit þar sem fulltrúar frá öllum flokkum sem sæti eiga í bæjarstjórn komi að borði og taki þátt í þessari veigamiklu vinnu.“

Árni Einarsson

Margrét Lind Ólafsdóttir

Bókanir og tillögur

Hagkvæmni nýs skipurits mjög óljóst

Posted on

Hagkvæmni nýs skipurits er mjög óljóst og litlar sem engar upplýsingar hafa verið varðandi fjárhagslega ávinning eða hagkvæmni. Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Neslistans lögðu því fram beiðni um upplýsingar á fundi bæjarstjórnar 22. september sl. Bæjarstjóri lofaði svörum á næsta bæjarstjórnarfundi.

1. Við afgreiðslu bæjarstjórnar hinn 8. september síðastliðinn á tillögu að nýju skipuriti yfirstjórnar Seltjarnarneskaupstaðar lágu ekki fyrir upplýsingar um fjárhagsleg áhrif (ávinning eða aukinn kostnað) hins nýja skipulags. Af þeirri ástæðu töldum við okkur ekki fært að samþykkja fyrirliggjandi tillögu og bókuðum um það á fundinum. Umfjöllun um samþykkt meirihluta Sjálfstæðisflokks á heimasíðu Seltjarnarness, sem væntanlega er byggð á upplýsingum frá bæjarstjóra eða meirihlutanum, bendir hins vegar til þess að fyrir liggi mat eða útreikningar sem sýni fram á fjárhagslegan ávinning af hinu nýja skipuriti. Á heimasíðunni segir m.a. (ath. að feitletranir eru okkar):

 

,,Meirihlutinn, sem sjálfstæðismenn skipa, telur rétt að við þær breyttu og erfiðu efnahagsaðstæður sem sveitarfélög á Íslandi búa nú við sé nauðsynlegt að leita allra leiða til þess að draga úr kostnaði við rekstur bæjarfélagsins.Undanfarna mánuði hefur verið unnið markvisst að því að draga úr kostnaði á ýmsum rekstrarsviðum til að mæta minnkandi tekjum, en standa þess í stað vörð um grunnrekstur eins og t.d. skóla-, umhverfis- og öldrunarmál. Fimm stöður framkvæmdastjóra mismundi sviða bæjarins verða lagðar niður í sparnaðar– og hagræðingarskyni. Samþykkt er að starfsemi sveitarfélagsins verði skipt í a.m.k. sex verkefnasvið í nýju stjórnskipulagi fyrir sveitarfélagið sem fyrsta áfanga í að taka upp flatt stjórnskipulag og verða þær stöður auglýstar.”

Úr þessu lesum við það grundvallaratriði sem ekki lá fyrir við afgreiðslu hins nýja skipurits að fyrir liggi að hið nýja skipurit leiði til fjárhagslegs sparnaðar og dragi úr kostnaði við yfirstjórn bæjarins þrátt fyrir að rekstrarsviðum sé fjölgað úr fimm í sex.

a. Við spyrjum því: Liggur fyrir mat á fjárhagslegum sparnaði af hinu nýja skipuriti?
b. Sé svo óskum við eftir skriflegri greinargerð um fjárhagsleg áhrif hins nýja skipurits.

2. Í nýju skipuriti er gert ráð fyrir að fjölga rekstrarsviðum og að hvert rekstrarsvið hafi stjórnanda.  Skv. mynd á bls. 6 í skýrslu Capacent eru hinir nýju sjórnendur með mismunandi starfsheiti – það er stjóri, tæknifræðingur og fulltrúi.

a. Er búið að raða þessum störfum í launakerfi?
b. Er gert ráð fyrir því að þessir aðilar hafi lægri laun en fyrri stjórnendur og/eða mismunandi laun eftir starfsheitum og ábyrgðarsviði?
c. Hvar verða verkefnisstjórar í skipuriti?  Lúta þeir beint undir bæjarstjóra eða þá hina nýju stjórnendur?

3. Í hinu nýja skipuriti er gert ráð fyrir að verkefnum í skipulagsmálum verði útvistað til annarra. Á heimasíðu Seltjarnarness er sagt að þetta sé byggt á þeirri staðreynd að ljóst sé að ,,verkefni á sviði skipulagsmála verða afar takmörkuð á næstu misserum og árum.”

Við spyrjum því:

a.Hver er sú stefnumörkun sem þetta byggist á?
b.      Við óskum eftir greinargerð um hagkvæmni þess að útvista verkefni sem virðist  óverulegt  í stað þess að halda þeim innan bæjarins.

Seltjarnarnesi 16. september,

Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista

Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar

Bókanir og tillögur

Áheyrnarfulltrúa í nefndir

Posted on

Eftirfarandi tillaga var lögð fram á bæjarstjórnarfundi þann 16. júní af hálfu Samfylkingarinna og Neslistans.

„Við undirrituð óskum eftir því að Neslisti og Samfylking eigi þess kost að skipa áheyrnafulltrúa í þær fimm manna nefndir sem framboðin eiga ekki aðalfulltrúa í. Hið sama gildi um fjárhags- og launanefnd.

Við teljum það fyrirkomulag auka skilvirkni í nefndarstörfum og bæjarstjórnarfundir verði markvissari fyrir vikið og styrkir lýðræðislega skipan fastanefnda bæjarins. Það skal tekið fram að áheyrnafulltrúi mun ekki þiggja nefndarlaun með setu sinni.“