Greinar

300 barna leikskóli á þremur hæðum  

Posted on
Guðmundur Ari Sigurjónsson,  1. sæti

Nú stuttu fyrir kosningar var skipaður þriðji starfshópurinn á 5 árum sem fékk það hlutverk að teikna upp framtíðarlausn fyrir húsnæðisvanda Leikskóla Seltjarnarness. Í þeim starfshópi var lagt upp með að skoða tvær tillögur, annars vegar að byggja einn 300 barna leikskóla og hins vegar að bæta við annarri leikskólabyggingu á Vallarbrautarróló og að gera upp núverandi húsnæði samhliða. Eftir umræður við foreldra og fagfólk þróaðist seinni tillagan út í það að þriðja leikskólabyggingin ætti frekar að rísa á Ráðhúsreitnum sem staðsettur er við hlið núverandi leikskólalóða. Með þeirri hugmynd væri búið að fækka fjölda barna á deildum á Sólbrekku og Mánabrekku og hægt væri að bjóða öllum börnum á aldrinum 1-5 ára leikskólapláss á sama reit. Einnig myndi undirbúningsrými kennara, fundaraðstaða og sérkennslurými stórbætt með tilkomu nýju byggingarinnar. Hugmyndin gengur út á það að aldurshópum sé skipt á milli bygginga og að innra starf, aðbúnaður og skólalóð taki mið af þroska þessa ólíka aldurshóps. Þannig skipta börnin um húsnæði og umhverfi eftir því sem þau eldast sem gefur þeim tækifæri á að takast á við nýjar áskoranir. Í hverri byggingu væri einn stjórnandi sem myndi leiða starfsfólk sitt í teymisvinnu, hafa yfirsýn og umsjón yfir starfinu og vera sá aðili sem foreldrar barna á viðkomandi stað gætu leitað til. Önnur praktísk rök fyrir þessari leið væri einfaldlega sú að reiturinn er skipulagður sem leikskólareitur. Ekki þyrfti að rífa núverandi leikskólabyggingar til þess að byggja þá nýju, skólastarfið gæti því haldið áfram óraskað á meðan á byggingartíma stæði og hægt væri að nýta sér skólalóðir og byggingar sem að fyrir eru.

Hagræðingarlausn
En þetta er ekki sú hugmynd sem meirihlutinn í nefndinni ákvað að senda í hugmyndasamkeppni arkitekta. Þeirra hugmynd snýr að því að láta hanna fyrir sig 300 barna leikskóla sem þarfagreindur hefur verið upp á þrjár hæðir. Bygginguna vilja þau reisa á núverandi leikskóla- og ráðhúsreit og rífa á Mánabrekku og Sólbrekku til að rýma fyrir nýja húsinu. Í þessari hugmynd eru helstu rök nefnd að stjórnendur og hádegismaturinn þurfi ekki að flakka á milli bygginga og að hægt sé hann húsið þannig að börnin upplifi ekki að þau séu í stórri byggingu með 300 börnum. Starfsfólk fái sameiginlega kaffistofu og að öll undirbúningsrými séu í sama húsi.

Vissulega eru viss hagkvæmnisrök og einhverjir 70 metra göngutúrar sparast við það að hafa allt starfið undir sama þaki en hvað tapast á móti? Leikskóli Seltjarnarness hefur verið rekinn í þremur byggingum, Sólbrekku, Mánabrekku og Holti. Leikskóli Seltjarnarness er í dag stærsti leikskóli landsins með um 200 börn. Í 300 barna leikskólanum er hugmyndin að fjölga börnum um helming, færa inntökualdur niður í eins árs og dreifa börnunum á þrjár hæðir í einu stóru húsi.

Skoðum alla kosti
Okkur í Samfylkingunni hefur ekki litist jafn vel á hugmyndina um 300 barna leikskólann út frá faglegu starfi og þörfum barnanna. Einnig teljum við töluverða sóun á almannafé og innviðum að ætla að rífa Sólbrekku og Mánabrekku sem er nýleg bygging í góðu ásigkomulagi. Viðhaldi á Sólbrekkuhúsinu hefur vissulega verið mjög illa sinnt af núverandi meirihluta. En þrátt fyrir að ráðast þurfi í talsverðar endurbætur á Sólbrekku þá væri hægt að taka það hús algjörlega í gegn fyrir lítið brot af þeim fjármunum sem bygging 300 barna leikskólans myndi kosta.

Einnig setjum við stór spurningarmerki við framkvæmd verksins og hversu raunhæf framkvæmdin er. Hvar eiga börnin að vera á meðan verið er að rífa gömlu húsin og byggja nýtt? Hversu mikið kostar aukalega að kaupa færanlegar kennslustofur fyrir öll leikskólabörnin? Hvar eiga þau að leika sér á meðan?

Það verður áhugavert að sjá hvaða tillögur að útfærslu á hönnun, framkvæmdferli og kostnaðaráætlun kemur frá verkfræðingum og arkitektum sem nú fá boltann frá nefndinni. Við í Samfylkingunni munum óska eftir því að þegar þær liggja fyrir verði þær bornar saman við tillögur um byggingu þriðju leikskólabyggingarinnar og að kostir og gallar verði skoðaðir gaumgæfilega áður en að endanleg ákvörðun verður tekin.

Hugsanleg útfærsla á þriðju byggingunni
Bókanir og tillögur

Bókun Samfylkingar vegna kaupa á Ráðagerði

Posted on

1034743Undirritaður telur ekki tímabært að bærinn kaupi Ráðagerði þar sem bærinn er nú þegar búinn að margfalda skuldir sínar og stendur í fjölmörgum framkvæmdum. Bærinn er með forkaupsrétt á húsnæðinu í þinglýstum kaupsamningi sem heldur þrátt fyrir að húsið gangi kaupum og sölum. Bærinn getur því keypt húsnæðið þegar fjárhagsstaðan er betri og fyrst og fremst þegar það er gert með einhverri stefnu og markmiði að leiðarljósi.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Fréttir

Öflugur listi Samfylkingar Seltirninga samþykktur

Posted on

IMG_5659Listi Samfylkingar Seltirninga var samþykktur á fjölmennum fundi á Bókasafni Seltjarnarness fyrr í kvöld. Listann skipa öflugir ungir og nýir einstaklingar í bland við eldri reynslubolta úr sveitarstjórnarmálunum. Listinn er fjölbreyttur í aldurssamsetningu og sérfræðiþekkingu en flestir fulltrúar á listanum hafa sérfræðiþekkingu á þeirri þjónustu sem sveitarfélög standa að.

Guðmundur Ari Sigurjónsson tómstunda- og félagsmálafræðingur og bæjarfulltrúi skipar oddvitasætið, Sigurþóra Bergsdóttir, verkefnastjóri og varabæjarfulltrúi skipar annað sætið, Þorleifur Örn Gunnarsson, grunnskólakennari skipar þriðja sætið og Karen María Jónsdóttir deildarstjóri skipar fjórða sætið.

Hér má sjá listann í heild sinni.
1. Guðmundur Ari Sigurjónsson – Tómstunda- og félagsmálafræðingur
2. Sigurþóra Bergsdóttir – Verkefnastjóri
3. Þorleifur Örn Gunnarsson – Grunnskólakennari
4. Karen María Jónsdóttir – Deildarstjóri
5. Magnús Dalberg – Viðskiptafræðingur
6. Helga Charlotte Reynisdóttir – Leikskólakennari
7. Stefán Bergmann – Líffræðingur
8. Hildur Ólafsdóttir – Verkfræðingur
9. Tómas Gauti Jóhannsson – Handritshöfundur
10. Laufey Elísabet Gissurardóttir – Þroskaþjálfi
11. Stefanía Helga Sigurðardóttir – Frístundaleiðbeinandi
12. Árni Emil Bjarnason – Bókbindari
13. Gunnlaugur Ástgeirsson – Menntaskólakennari
14. Margrét Lind Ólafsdóttir – Bæjarfulltrúi

Bókanir og tillögur

Hafna afgreiðslu á umsókn um stöðuleyfi/gámaleyfi

Posted on

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og allir bæjarfulltrúar höfnuðu umsókn frá þjónustumiðstöð Seltjarnarness um stöðuleyfi eða gámaleyfi á athafnasvæði þjónustumiðstöðvar Seltjarnarnesbæjar og bókuðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar eftirfarandi:

Fulltrúar Samfylkingar Seltirninga hafna afgreiðslu 10. liðar, 70. fundargerðar Skipulags- og umferðarnefndar og furðum við okkur á þeim vinnubrögðum sem unnið hefur verið eftir í máli 2018020011, umsókn um stöðuleyfi á athafnasvæði. Engin samþykkt lá fyrir frá skipulagsyfirvöldum þegar farið var í það að reisa þá byggingu sem nú hefur risið á athafnasvæðinu og samkvæmt bæjarstjóra var hann ekki einu sinni meðvitaður um bygginguna.
Þessi samþykkt gefur það fordæmi að bæjarbúar, fyrirtæki og stofnanir bæjarins sem fá höfnun á framkvæmdartillögur eigi þá einfaldlega að ráðast í framkvæmdir samt og sækja um leyfi eftir á. Bærinn samþykkir slík vinnubrögð.
Ekki nema að stofnanir bæjarins hafi meiri rétt heldur enn almennur íbúi á Seltjarnarnesi þegar kemur að því að fylgja lögum og reglum?
Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Bókanir og tillögur

Bókun vegna fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018

Posted on

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Neslista styðja tillögu að fjárhagsáætlun en bókuðu eftirfarandi:

Bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar styðja tillögu að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2018.
Við fögnum því að viðmiðunarmörk vegna afsláttar af fasteignagjöldum eldri borgara hafa verið hækkuð frá því sem var og að meira samræmi sé komið á milli einhleypra og hjóna. Við fögnum því einnig að fyrir liggur að ráðist verður í byggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk og að keypt verður félagsleg íbúð á næsta ári til viðbótarþeirri sem á að kaupa á þessu ári. Við fögnum því einnig að álagningarhlutfall fasteignaskatts er lækkað til mótvægis við gífurlega hækkun fasteignamats sem orðið hefur á síðasta fjárhagsári.

Mikilvægir áfangar í auknu gegnsæi stjórnsýslunnar eru að nást, svo sem rafrænt íbúalýðræði og opið bókhald sveitarfélagsins. Nýtt fyrirkomulag við skráningu á biðlista eftir félagslegu íbúðarhúsnæði er mikilvægur grundvöllur stefnumörkunar og ákvarðanatöku í málefnum þeirra sem á slíka þjónustu þurfa af hálfu sveitarfélagsins.
Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista
Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar