Bókanir og tillögur

Öllum tillögum minnihlutans hafnað

Tillaga um breytingar á fjárfestingum fyrir árið 2019

Tillaga Samfylkingar og Neslista/Viðreisnar um breytingar á fjárhagsáætlun fyrir árið 2019

Í núverandi áætlun er lagt til að 100 milljónir fari í byggingu íbúakjarna fyrir fólk með fötlun.  Við styðjum eindregið áætlanir um byggingu á íbúakjarna fyrir fatlaða en teljum miðað við stöðu verkefnis ekki raunhæft að hægt verði að eyða þessum fjármunum í bygginguna á næsta ári.  Staðarvali er ekki lokið, ekki ljóst hvort að aðal- og deiliskipulagi þurfi að breyta miðað við staðsetningu og í raun ansi margir óljósir þættir við verkefnið sem gerir mjög ólíklegt að það komist svo vel af stað á næsta ári. Nefna má að árið 2018 voru teknar frá 125 milljónir í verkefnið sem ekki hafa verið notaðar.

Við leggjum því til að áætlaðar verði 70 milljónir í verkefnið árið 2019 sem ætti að koma því vel af stað þegar skipulagsvinnu lýkur. Við leggjum svo til að það 30 milljón króna svigrúm sem skapast verður nýtt til að bæta gæði þjónustu bæjarins og ráðast í nauðsynlegt viðhald.

Tillögur:

  1. Breyta fjárfestingu í Sérbýli fyrir fatlað fólk úr 100.000.000 í 70.000.000kr
  2. Setja 5.000.000 í viðhald og endurbætur á Sæbraut 2. Það þarf að klára að setja klæðningu og mála húsið að utan. Laga rakaskemmdir í útveggjum og lofti. Laga ofna, vaska, sprungur í veggjum ásamt ýmsum öðrum smáverkum.
  3. Setja 10.000.000 kr í endurnýjun á húsgögnum í Grunnskóla Seltjarnarness eins og skólastjóri hafði óskað eftir til að hefja nauðsynlega endurnýjun á innviðum í kennslustofum.
  4. Setja 5.000.000 kr í endurnýjun á Félagsheimili Seltjarnarness. Nú stendur yfir stefnumótun um félagsheimili Seltjarnarness og framtíðar rekstrarfyrirkomulag hússins. Það liggur þó fyrir að sama hvaða leið verður farin þarf að ráðast í nauðsynlegt viðhald og endurbætur.
  5. Setja 10.000.000 í félagsaðstöðu aldraðra við Skólabraut. Á næsta ári verður nýtt hjúkrunarheimili með dagvistunarrýmum tekið í notkun og við það flyst dagvistunin á Skólabraut og skapast kjörið tækifæri til að koma loksins upp almennilegri félagsmiðstöð eldri borgara á Seltjarnarnesi með því að breyta núverandi dagvistun í félagsaðstöðu. Einnig þarf að að endurgera púttvöll eldri borgara sem skemmdist við framkvæmdir á íþróttahúsinu en búið er að óska eftir að hann verði upphitaður með gervigrasi svo hægt sé að nýta hann allt árið um kring. Einnig þarf að endurnýja handrið, innviði, tæki og tól.

Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga