Menningarmál

Samfylkingin vill:

 • Tryggja öfluga verk- og listkennslu á öllum skólastigum.
 • Bjóða upp á leikhús-, safna- og tónleikaferðir fyrir skólabörn, þeim að kostnaðarlausu.
 • Treysta frekar rekstur Tónlistarskóla Seltjarnarness
 • Styðja við starfsemi einkaskóla á sviði listdans og leiklistar
 • Byggja upp Barnamenningarhátíð
 • Setja á laggirnar æfingahúsnæði fyrir unga tónlistarmenn
 • Búa til hvatningasjóð fyrir unga listamenn.
 • Koma á skýru verklagi við úthlutun fjármagns til listastarfsemi
 • Treysta frekar hlutverk Bókasafn Seltjarnarness sem menningarmiðstöðvar
 • Efla fjölmenningarstarf með áherslu á tungumál og félagsleg tengsl
 • Koma á fót starfsemi í Lækningaminjasafninu

Listkennsla og menningaruppeldi er forsenda skapandi hugsunar sem einnig er skilgreind sem lykilfærni í heimi sem tekur miklum breytingum frá degi til dags. Á sama tíma lífga og lita listir og menning umhverfi okkar og bjóða okkur tilbreytingu frá lífsins amstri. Seltjarnarnes hefur alla burði til að verða skapandi og skemmtilegt samfélag þar sem rými er fyrir það skipulagða til jafns við það óvænta og sjálfsprottna.

Samfylkingin vill að listir verði snar þáttur í uppeldi og kennslu barna og ungmenna á Seltjarnarnesi. Hún vill tryggja öfluga verk- og listkennslu á öllum skólastigum með aðkomu listamanna í tímabundnum verkefnum. Hún vil sjá til þess að öllum grunnskólabörnum standi til boða leikhús-, safna- og/eða tónleikaferð á hverju skólaári, þeim að kostnaðarlausu. Samfylkingin vill treysta frekar rekstur Tónlistarskóla Seltjarnarness á sama tíma og hún vill styðja við starfsemi rótgróinna einkaskóla á sviði listdans og leiklistar.

Samfylkingin vill treysta vettvang barna og ungmenna til að uppgötva og rannsaka heiminn og þróa og þroska þannig hæfileika sína og tækifæri. Hún vill að framlag barna til menningar verði metið að verðleikum og viðurkennt að þau séu virkir þátttakendur í menningarlífinu. Samfylkingin vill efla Barnamenningarhátíð sem vettvang menningar fyrir börn og menningu barna.

Menningarstofnanir Seltjarnarness endurspegla sjálfsmynd bæjarins hverju sinni. Þær auðga líf bæjarbúa með því að opna fyrir gagnrýnið samtal um lífið og tilveruna. Samfylkingin vill styrkja Bókasafn Seltjarnarness enn frekar sem miðstöð mannlífs og menningar með öflugu viðburðahaldi. Hún vill styðja við fjölmenningarstarf á bókasafninu til að efla lýðræði og jöfnuð enda telur fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda um 10% íbúa á Nesinu.

Í dag er Lækningaminjasafnið táknmynd hruns og samfélagslegs gjaldþrots. Óformlega hefur húsið hinsvegar þegar sannað sig sem kraftmikið fjölnota rými fyrir myndlistasýningar, tónleika, málstofur og viðburði af ýmsu tagi. Samfylkingin vill koma rekstri fyrir í húsinu hið fyrsta enda hefur það alla burði til að verða stolt bæjarins sem laðar til sín bæjarbúa, íbúa höfuðborgarsvæðisins og erlenda gesti.  

Samfylkingin vill að Seltjarnarnesbær bjóði einstaklingum og hópum tækifæri til að örva andann og sköpunarkraftinn, hvort sem það er í gegnum samskipti við aðra, eða þátttöku í menningu og listum. Skapa þarf markvissa umgjörð utan um menningarstarf og listflutning á Seltjarnarnesi með skýru verklagi við úthlutun fjármagns til listastarfsemi. Einnig er mikilvægt að styðja við unga listamenn með styrkjum og aðstöðu til að stunda og setja upp list sína.