Leikskólinn

Samfylkingin vill:

  • Tryggja öflugt og faglegt leikskólastarf
  • Taka inn öll börn frá 12 mánaða aldri
  • Byggingu nýs leikskóla á Ráðhúsreit
  • Endurbætur á núverandi húsnæði leikskólans
  • Endurskoðun fjölda barna á deildum
  • Aðkomu starfsfólks að markvissri þarfagreiningu nýs leikskóla
  • Styttingu vinnuviku leikskólakennara
  • Hækkun launa leikskólakennara

Seltjarnarnes er blómlegur bær og ungum fjölskyldum fer fjölgandi á ný. Framtíðarspá um fjölgun leikskólabarna á Seltjarnarnesi segir okkur að nú þegar þurfi að að fjölga plássum í rúmlega 250 svo hægt sé að taka inn börn frá 12 mánaða aldri. Sama spá segir að við lok næsta kjörtímabils þurfi leikskólinn að bjóða upp á pláss fyrir nær 300 börn. Á slíkum vaxtartímum er mikilvægt er að standa vörð um það faglega starf sem einkennt hefur leikskólann á Seltjarnarnesi um árabil, líðan barnanna og öflugt foreldrasamstarf.

Samfylking Seltirninga mun færa Leikskóla Seltjarnarness til framtíðar! Til að mæta fjölgun og tryggja að hægt sé að taka inn öll börn frá 12 mánaða aldri við góðar starfsaðstæður leggur Samfylkingin áherslu á byggingu nýs leikskóla á svokölluðum Ráðhúsreit og eflingu hans sem leikskólasamfélags með þremur aðskildum en innbyrðis tengdum byggingum sem þjóna hver um sig ólíku þroskastigi barna. Samfylkingin leggur einnig áherslu á að öll hönnun verði unnin markvisst út frá þarfagreiningu þar sem byggt er á sterkri framtíðarsýn og leikskólastefnu, fagþekkingu starfsfólks og reynslu þeirra á þörfum barna á Seltjarnarnesi.

Til að viðhalda faglegu starfi og tryggja nýliðun er mikilvægt að Seltjarnarnes geti boðið betur en önnur sveitafélög. Samfylkingin ætlar að stuðla að styttingu vinnuvikunnar jafnframt því að hækka laun leikskólakennara. Einnig mun Samfylkingin beita sér fyrir því að leikskólanum verði lokað milli jóla og nýárs til að tryggja mikilvæga hvíld starfsfólks og barna og mikilvægar samverustundir með fjölskyldu. Með þessum aðgerðum minnkum við álag og streitu og þar með veikindadögum starfsfólks sem verður ánægðara í starfi og hefur meiri starfsorku. Til viðbótar vill Samfylkingin endurskoða fjölda barna inni á deildum, þannig að hægt sé að mæta hverju barni þar sem það er statt og veita nauðsynlega hvíld.