Íþróttir og tómstundir

Samfylkingin vill:

  • Brúa bilið milli frístunda og félagsmiðstöðvar fyrir aldurshópinn 10-12 ára.
  • Tryggja aðgang allra barna og ungmenna að tómstundum og íþróttum með frístundastyrkjum frá 5 ára aldri
  • Sporna við brottfalli úr íþróttastarfi Gróttu
  • Jafna aðgengi og aðbúnað stráka og stúlkna í íþróttastarfi Gróttu
  • Treysta félagsleg tengsl með aðstoð við börn innflytjenda og aðflutt börn
  • Skapa eldri borgurum aðstöðu og tækifæri til að stunda líkamsrækt

Öflugt íþrótta- og tómstundastarf er eitt af aðalsmerkjum Seltjarnarnesbæjar. Samstarf og samfella á milli skóla og Gróttu er til fyrirmyndar en með því hefur tekist að stytta vinnudag barna og unglinga og þar með gefa fjölskyldum meiri tíma til samveru. Markviss stefna í tómstundamálum er órjúfanlegur þáttur í forvörnum sveitarfélagsins. Auk þess sýna rannsóknir að hreyfing stuðli að auknu líkamlegu heilbrigði og betri andlegri líðan.

Frístundamiðstöð Seltjarnarnesbæjar heldur úti öflugu tómstundastarfi fyrir börn og unglinga á Seltjarnarnesi þar sem menntun, forvörn og afþreying er veitt með heildstæðri þjónustu allan ársins hring.  Samfylkinging leggur áherslu á að bilið milli frístundar og félagsmiðstöðvar Seltjarnarness verði brúað þannig að aldurshópurinn 10-12 ára, sem þessa stundina fellur milli skips og báru njóti sömu þjónustu og aðrir.

Samfylkingin leggur áherslu á tómstundir fyrir allra. Hún vill tryggja að öll börn, óháð efnahag foreldra og félagslegri stöðu, hafi jöfn tækifæri til íþróttaiðkunar á Seltjarnarnesi auk þess sem þeim verði gert kleift að sinna hugðarefnum sínum og tómstundum í umsjón hæfra leiðbeinanda. Samfyllkingin vill bjóða öllum börnum á Seltjarnarnesi frá 5 ára aldri tómstundastyrk.

Samfylkingin mun áfram styðja myndarlega við íþróttastarf Gróttu með rekstrarsamningi auk þess sem kappkostað verður við að klára byggingu íþróttamannvirkja. Samfylkingin leggur áherslu á að spornað verði við brottfalli iðkenda úr Gróttu með því að efla félagslega samheldni í eldri flokkum auk þess að stuðla enn frekar jafnræði í aðstöðu og aðbúnaði milli stúlkna og drengja með aðgerðaáætlun í jafnréttismálum. Sérstök áhersla verði lögð á það að opna aðgengi aðfluttra og innflytjenda að íþróttastarfi Gróttu og að mynda félagsleg tengsl.

Stór hluti ungmenna hættir íþrótta- og tómstundaiðkun eftir grunnskóla. Heilsuefling fyrir þennan aldurshóp og styrking félagslegra tengsla í nærumhverfinu er mikilvæg á tíma og áframhaldandi menntum er sótt í önnur sveitarfélög.