Bókanir og tillögur

Hallarekstur að verða regla frekar en undantekningu hjá meirihluta Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi.

Það er grafalvarleg staða sem Seltjarnanesbær stendur nú frammi fyrir en bærinn hefur á síðastliðnum tveimur árum skilað rúmlega 400 milljón króna tapi og aukið skuldir sveitarfélagsins um tæplega 3 milljarða. Á hálfsárs uppgjöri bæjarins sést að hallareksturinn heldur áfram og hefur bæjarsjóður safnað um 160 milljón króna tapi á fyrstu 6 mánuðum ársins.

Þegar sveitarfélag er rekið með halla er auðvelt að benda á einstök atriði til að afsaka hallareksturinn en þegar öllu er á botninn hvolft hvílir ábyrgðin hjá þeim meirihluta sem setur fram áætlanir og stýrir rekstri bæjarins. Hallarekstur sem þessi er að verða að reglu frekar en undantekningu hjá meirihluta Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi.

Við í minnihlutanum höfum ár eftir ár kallað eftir og bókað að sveitarfélagið þurfi að vinna ítarlegar greiningar þegar þriggja ára fjárhagsáætlanir bæjarins eru gerðar en hingað til hefur meirihlutinn aðeins framreiknað reksturinn án greiningarvinnu á íbúasamsetningu bæjarins, þjónustuþörf eða raunhæfri framkvæmdaáætlun. 

Ég vil með leyfi forseta vísa í bókun Samfylkingarinnar frá árinu 2012 við samþykkt þriggja ára áætlunar en þar stendur:

“Á undanförnum árum höfum við tekist á við breyttar forsendur í rekstri bæjarins og lifað af óvissutíma. Nú virðist vera að birta til og því komnar forsendur fyrir því að teikna upp framtíðarsýn fyrir Seltjarnarnesbæ.

Þessa sýn vantar inn í áætlun fyrir 2014-2016. Áætlun aðalsjóðar er eingöngu framreikningur á áætlun 2013. Ekki hefur verið unnin grunnvinna við að meta hvort breytingar verði á samsetningu íbúa næstu árin, til dæmis hvort nýjar byggingaframkvæmdir sem áætlaðar eru munu hafa áhrif og í kjölfarið hvort hugsanlega megi sjá fyrir breytingar á þjónustuþörf bæjarbúa.”

Inntak þessarar bókunar hefur svo verið síendurtekið árlega síðastliðin 7 ár en meirihlutinn hefur ekki hlustað. Greiningarvinna sem þessi er nauðsynleg svo bæjarstjórn geti tekið upplýstar ákvarðanir þegar kemur að fjárhagsáætlanagerð og tekið ákvarðanir um fjárfestingar ef bærinn ætlar að ná sér réttu meginn við núllið.

Nú 11. september erum við að ræða hálfs árs uppgjör bæjarins en meirihlutinn hefur ekki enn lagt fram nein drög að heildstæðri endurskoðun á fjárhagsáætlun eða hvernig sveitarfélagið hyggst mæta hallarekstri ársins með viðaukum eða aðgerðum.

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga