Grænar áherslur

Samfylking Seltirninga vill:

  • Vernda strandlengjuna með lagningu á tvöföldu fráveitukerfi
  • Jafna búsetuskilyrði með miðlægri kostun á varmaskiptum
  • Setja upp vistvæna og orkusparandi götulýsingu
  • Skoða kosti og útfærslur á birtustýringu á götulýsingu með snjallvæðingu ljósastaura
  • Tengja hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla í ljósastaura
  • Byggja hjólageymslu við sundlaug og Eiðistorg og stuðla að notkun almenningssamgangna
  • Auka flokkun á sorpi – taka við lífrænu sorpi

Ástand fráveitu í fjörum á Seltjarnarnesi er ámælisvert en niðurstöður heilbrigðiseftirlits síðustu ára sýna að fjöldi saurkólígerla í sjó er oftar en ekki yfir viðmiðunarmörkum auk þess sem ástand vatns telst reglulega með öllu ófullnægjandi. Í vatnaveðrum er skólpi ekki dælt til Reykjavíkur í hreinsun heldur um yfirfall í viðtaka á Seltjarnarnesi og þaðan óhreinsuðu út í sjó við fjörumörk í Bakkavík, við Lambastaði, Eiðsvík og Norðurvík. Á sama tíma eru strendur Seltjarnarness vinsælir viðkomustaðir barna, fjölskyldna og vatnaíþróttafólks. Samfylkingin vill setja verndun strandlengjunna í forgang með því að aðskilja lagnir fyrir skolp frá húsum og regnvatn frá götum með lagningu á tvöföldu fráveitukerfi eins og tíðkast annars staðar. Einnig vill hún koma upp mælum svo hægt sé að fylgjast með flæði skólps um yfirföll og sjá til þess að reglugerðum sé fylgt. Einungis þannig má uppfylla viðmiðunarmörk um ástand vatns, og standa vörð um strandmenningu á Seltjarnarnesi.

Fyrir Seltirninga eru það sjálfsögð lífsgæði að hita hýbýli sín með ódýru heitu vatni. Á Nesinu gerir efnainnihald jarðhitavatnsins það hinsvegar að verkum að ekki er hægt að leiða vatnið beint inn á ofnakerfi húsa. Fyrir vikið bera húseigendur mikinn kostnað af viðhaldi og endurnýjun varmaskipta sem nauðsynlegir eru til tryggja öryggi og verja lagnir gegn tæringarskemmdum. Samfylkingin vill jafna búsetuskilyrði á Seltjarnarnesi með því að láta skoða kosti þess að koma annað hvort upp miðlægum varmaskiptabúnaði þannig að upphituðu ferskvatni er dælt í gegnum dreifikerfið og inn í hýbýli eða niðurgreiðslu á varmaskiptum til húseigenda með þátttöku hitaveitunnar í útboði á slíkum búnaði fyrir íbúa.

Gatnalýsing á Seltjarnarnesi er eign bæjarfélagsins. Þrátt fyrir bann skv. Evróputilskipunar frá árinu 2015 notast bæjarfélagið enn við orkufrekar kvikasilfursperur í ljósastaurum. Samfylkingin vill setja fram langtímaáætlun um breytingu á ljósgjöfum þar sem umhverfis- og orkuvæn LED lýsing er sett í forgang. Samfylkingin vill skoða kosti og útfærslu á því að innleiða snjallstaura með áherslu á ljós- og myrkurgæði samhliða áætlun um endurnýjun ljósgjafa. Snjallvæddir staurar bjóða upp á notkun birtuskynjara sem gera okkur kleift að draga úr birtumagni þegar það á við s.s. á nóttunni, á sama tíma og hreyfiskynjarar tryggja fullkomið öryggi íbúa með nákvæmri birtustýringu þegar gangandi, hjólandi og akandi umferð þurfa á að halda. Með markvissri birtustýringu næst fram enn frekari orkusparnaður auk þess sem okkur opnast ómetanlegur aðgangur að himinhvolfinu og þeim náttúrugæðum sem þar er að finna.

Gríðargögn sem fást munu með tilkomu snjallstaura, munu í fyrsta sinn segja okkur til um hvernig íbúar og gestir nota bæjarrýmið. Með slíkum gögnum opnast okkur áður óþekktar leiðir til skilvirkrar og ábyrgar ákvarðanatöku en með gríðargögnum getum við meðal annars byggt markvissar umferðaröryggisáætlanir sem taka til raunnotkunar gatnakerfis, göngu- og hjólaleiða og hraðatakmarkandi aðgerða.

Samfylkingin leggur áherslu á orkuskipti í samgöngum og vill minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda ásamt því að kolefnisjafna Seltjarnarnesbæ. Samfylkingin stefnir á uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla samhliða nýjum snjallstaurum. Þannig geti bæjarbúar hlaðið bílana sína á einfaldan og aðgengilegan hátt við heimili sín og stofnanir bæjarins með orkulyklum. Samfylkingin vill einnig koma upp yfirbyggðum hjólageymslum við sundlaugina og Eiðistorg til að létta á bílastæðavanda íþróttamiðstöðvarinnar og gera íbúum auðveldara fyrir að hjóla á torgið og nýta sér þjónusta þar eða taka strætó númer 13 úr bænum.

Til að vinna að sjálfbæru samfélagið þarf að stíga skrefið til fulls í sorphirðu á Seltjarnarnesi. Íbúum hefur um nokkra hríð staðið til boða að flokka pappír, ásamt því að nú er einnig hægt að safna plasti og setja í heimilistunnuna. Samfylkingin vill bæta við flokkun á gleri, málmi og lífrænum úrgangi og þar með flokka allan úrgang sem fellur til frá íbúum, stofnunum og fyrirtækjum á Seltjarnarnesi. Til viðbótar vill Samfylkingin innleiða hvata sem eykur vilja bæjarbúa til að flokka með nýrri gjaldskrá fyrir sorp þar sem greitt er minna fyrir flokkunartunnur og meira fyrir almenna heimilistunnu enda er kostnaður við urðun óflokkaðs heimilissorps margfalt meiri fyrir sveitarfélagið.