Bókanir og tillögur

Fjárhagsáætlun kyrrstöðu og niðurskurðar

Bókun Samfylkingar Seltirninga við samþykkt fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020.

Sú fjárhagsáætlun sem lögð er hér fram gerir ráð fyrir algjörri kyrrstöðu, niðurskurði á öllum sviðum og þjónustuskerðingum við íbúa bæjarins. Þrátt fyrir þessar aðgerðir gerir áætlunin aðeins ráð fyrir að afgangur A-sjóðs nemi 292 þúsund krónum. Það er því ljóst að það má ekkert út af bregða til þess að bæjarsjóður heldur áfram hallarekstri sínum sem hefur numið hundruðum milljóna króna síðastliðin ár. Talsverð óvissa ríkir einnig þar sem að kjarasamningar við flest öll stéttarfélög eru lausir og hefði því verið mikilvægt að hafa svigrúm í rekstri bæjarins. Þegar tillagan er svo rýnd og borin saman við rekstur síðastliðinna ára má finna liði þar sem að tekjur eru ofáætlaðar og fjárútlát vanáætluð svo gera má ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri bæjarins þrátt fyrir þjónustuskerðingar. 

Það er dýrt að reka lítið sveitarfélag með fyrsta flokks þjónustu en það er enga síður það loforð sem stjórnmálamenn gáfu fyrir kosningar og það er sú krafa sem bæjarbúar gera á bæinn. Sveitarfélagið hefur síðastliðin ár staðið í miklum framkvæmdum og eru stórar framkvæmdir eins og bygging nýs leikskóla framundan. Skuldir bæjarins hafa margfaldast með tilheyrandi vaxtakostnaði og ekkert er í kortunum sem sýnir fram á að svigrúm verði til þess að greiða niður skuldir eða leggja til hliðar fjármuni fyrir þeim nauðsynlegum viðhalds- og nýframkvæmdum sem framundan eru. 

Með áframhaldandi hallarekstri og skuldsetningu bæjarins er skattbyrði bæjarbúa ýtt fram í tíman með vöxtum og því hefur Samfylking Seltirninga lagt áherslu á það á vinnufundum fjárhagsáætlunar að færa útsvarið í 14.48% sem er sama prósenta og Kópavogur, Hafnarfjörður og Mosfellsbær innheimta. Með þessari breytingu myndu tekjur bæjarins hækka um tæplega 170 milljónir sem hægt væri að nýta til þess að borga niður skuldir, setja í fjármögnun á þeim framkvæmdum sem eru á dagskrá eða til þess að koma í veg fyrir niðurskurð í félagsþjónustu bæjarins, hjá leikskólunum, í grunnskólanum, tónlistarskólanum, frístundarstarfinu og í félagslega kerfinu svo nokkur dæmi séu tekin. Það er óábyrgt af sveitarstjórn að leggja fram enn eina áætlunina sem mun enda með hallarekstri og það er auk þess farið að bitna verulega á þeirri þjónustu sem að bærinn veitir íbúum sínum og getu hans til þess að standa jafns við þá framþróun sem er að eiga sér stað í sveitarfélögunum í kringum okkur. 

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga