Ferðamál

Samfylkingin vill:

  • Smíða áfangastaðaáætlun fyrir uppbyggingu innviða á Seltjarnarnesi
  • Skipuleggja svæðið í kringum Gróttu með áherslu á varðveislu náttúru og menningararfleifðar
  • Loka fyrir akandi umferð að Snoppu og leggja áherslu á gangandi og hjólandi umferð á svæðinu og notkun ferðamanna á almenningssamgöngum.
  • Leggja göngustíga sem tengja saman þjónustu og einstök náttúrusvæði í Framnesi og Snoppu.
  • Koma á koppinn salernisaðstöðu
  • Koma á fót rekstri í Lækningaminjasafninu
  • Koma á landvörslu yfir varptímann
  • Setja takmörk um akstur stórra rútubifreiða á Seltjarnarnesi með lögreglusamþykkt

Ferðamönnum heldur áfram að fjölga á Íslandi og hafa íbúar á Seltjarnarnesi ekki farið varhluta af því. Gróttuviti er þegar kominn á kortið sem eitt helsta kennileiti höfuðborgarsvæðisins, ásamt Perlunni, Hörpu, Sólfarinu og Hallgrímskirkju. Dregur vitinn og nánasta umhverfi hans að sér erlenda og innlenda gesti allt árið um kring, áhugafólk um norðurljós að vetri og náttúru og fuglalíf að sumri. Ferðamönnum mun halda áfram að fjölga á Seltjarnarnesi samhliða auknum straumi ferðamanna til Íslands á næstu árum. Horfast þarf í augu við að heimurinn hefur uppgötvað Ísland og þar með talið Seltjarnarnes.

Markviss stýring er lykill að farsælli og sjálfbærri uppbyggingu og verndun viðkvæmra svæða. Samfylkingin leggur áherslu á smíði áfangastaðaáætlunar fyrir bæinn sem verði lifandi plagg og að forgangsröðun aðgerða taki mið af aðstæðum og þróun hverju sinni. Í áætluninni verði teknar saman helstu aðgerðir er snúa að uppbyggingu innviða, þjónustu og afþreyingar á Seltjarnarnesi á næsta kjörtímabili með skilgreindum markmiðum og víðtæku samráði við alla hagaðila. Áætlunin miði að því að upplifun af svæðinu standist væntingar ferðamannsins í sátt við íbúa, umhverfi og atvinnurekstur í bænum. Að áhersla verði lögð á að tryggja að áfangastaðurinn Seltjarnarnes einkennist af gæðum, gestrisni og einstakri upplifun.

Við áætlanagerðina verði stuðst við skýrslu nefndar um stefnumörkun í ferðaþjónustu á Seltjarnarnesi sem unnin var árið 2016. Meðal forgangsverkefna verði að skipuleggja svæðið í kringum Gróttu með áherslu á varðveislu náttúru og menningararfleifðar enda felst aðdráttarafl svæðisins í stórbrotinni náttúrufegurð, fuglalífi, menningu og sögu. Lokað verði fyrir akandi umferð að Snoppu og henni beint í stæði við Bakkatjörn og Lækningaminjasafnið. Lögð verði áhersla á gangandi og hjólandi umferð á svæðinu og notkun ferðamanna á almenningssamgöngum. Byggðir verði upp stígar sem tengi saman þjónustu og einstök náttúrusvæði.

Nesstofu, Lækningaminjasafninu og Ráðagerði verði fengið skýrt hlutverk og myndi húsin saman miðstöð þjónustu, upplýsinga og afþreyingar á svæðinu. Lækningaminjasafnið er eftirsóttur vettvangur menningarunnenda enda hefur það þegar sannað sig sem fjölnota rými fyrir slíka starfsemi. Auk þess sem umhverfi og útsýni gerir veitingarekstur á þessum stað einkar aðlaðandi. Nesstofa er miðstöð menningarminja á Nesinu og einstakrar sögu lækninga sem einnig birtast í fallegum grasagarði að baki stofunnar.