Eldri borgarar

Samfylking Seltirninga vill:

  • Nálgast málefni aldraðra markvisst og málefnalega, með forgangsröðun og tímasettum aðgerðum.
  • Efla gæði þjónustu og stuðning við aldraða á heimilum þeirra. Eldri borgara þurfa að búa við það öryggi að geta treyst á þá þjónustu sem bærinn ætlar sér að veita.  
  • Vandi vegna húsnæðis verði léttur með endurskoðun á tekjutengdum afslætti á fasteignagjöldum, aðgerðum við gerð skipulags og mótun húsnæðisáætlunar.
  • Tómstunda og íþróttastefnu verði fylgt eftir tækifærum og aðstöðu til líkamsræktar
  • Tómstundaaðstaða fyrir aldraða verði stórlega bætt og hugsuð til framtíðar.
  • Samstarf Öldungaráð, bæjarráð, bæjarstjórnar og nefnda bæjarins verði formfest

Eldri borgarar er áberandi og fjölbreyttur hópur í samfélaginu á Seltjarnarnesi. Hópur eldri borgara 60 ára og eldri spannar um 40 ár og höfða ólík verkefni til ólíkra aldurshópa. Aðstæður fólks breytast einnig með aldri og ýmis ný úrlausnarefni taka smám saman við.

Það er stefna Samfylkingarinnar að allir hafi jafna möguleika til að eldast með reisn. Það er vilji okkar að hver og einn geti búið sem lengst heima í öryggi og án þess að einangrast. Efling gæða í heimaþjónustu og stuðningur við aldraða á heimilum þeirra er því eitt mikilvægasta verkefnið að ráðast í til viðbótar við eflingar á dagvistun. Fyrir þá er þurfa meiri aðstoð er mikilvægt að koma upp þjónustuíbúðum fyrir aldraða og klára byggingu hjúkrunarheimilis. Skoða þarf einnig hvernig bæta megi starfsaðstæður starfsfólks í öldrunarþjónustu svo sem með innleiðingu á tæknilausnum í velferðamálum. Á sama tíma vill Samfylkingin tryggja faglega þjónustu með því að hvetja starfsfólk til  endurmenntunar og starfsþróunar.

Samfylkingin leggur áherslu á að skapa eldri borgurum aðstöðu og tækifæri til að stunda heilsu- og hugrækt, viðhalda með því líkamlegri og andlegri færni og bæta lífsgæði á þriðja æviskeiðinu. Með því að viðhalda tengslum við nærsamfélagið í gegnum félagsstarf og tómstundir fyrirbyggjum við tómarúm og einmanaleika sem geta verið fylgifiskar þess að eldast. Margt er vel gert á Nesinu varðandi almennt félagslíf eldri borgara og vill Samfylking Seltirninga efla starfið enn frekar þar sem hópurinn verður bæði stærri og fjölbreyttari með hverju árinu. Mikilvægt er að styðja við sjálfsprottna hópa ásamt því að bjóða upp á fjölbreytta tómstundastarfsemi með það að markmiði að ná til sem flestra. Einnig þarf að kynna betur það félagsstarf sem stendur eldri borgurum til boða. Miðað er við valdeflingu, svo eldri borgarar geti sinnt daglegum verkefnum eins lengi og kostur er, búið lengur í eigin húsnæði, og lengt tíma sinn á vinnumarkaði.  

Draga þarf lærdóm af tveggja ára reynslu af starfi Öldungaráðs sem samstarfsvettvangs bæjarins og Félags eldri borgara en starfið hefur ekki skilað því sem vænst var. Fáum málum hefur verið vísað til ráðsins og lítil efnisleg umræða farið fram. Málefni aldraðra tengjast gjarnan einstökum fagnefndum, stundum fleiri en einni og þarf þá að virkja samstarf þeirra. Samfylkingin vill tryggja eðlilega aðkomu eldriborgara að málum er þá snerta og þróun úrlausna.