Greinar

Eitt samfélag fyrir alla

2. sæti – Sigurþóra Bergsdóttir, verkefnastjóri

Innviðir okkar á Seltjarnarnesi eru sterkir, við erum lítið samfélag þar sem við getum haldið utan um alla og boðið þéttriðið öryggisnet þar sem enginn lendir útundan. Velferðarþjónustan okkar gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja netið gagnvart ólíkum hópum.  Samfylkingin leggur áherslu á að velferðarþjónustan okkar miði að þörfum fólks, að þjónustan sé fyrir fólk en ekki kerfi.  Við höfum lagt áherslu á félagslegt húsnæði á þessu kjörtímabili og komum því loks til leiðar að hægt væri að skrá sig á biðlista eftir húsnæði sem áður var ekki hægt.  Við teljum nauðsynlegt að fjölga félagslegum íbúðum til að þeir sem það þurfa fái húsaskjól.

Það eru mörg verkefni sem við hjá Samfylkingunni viljum fara í af krafti.  Á þessu kjörtímabili tók Seltjarnarnes yfir málefni fatlaðra. Byggja þarf sérhæft húsnæði fyrir fatlað fólk en einnig þarf að huga að aðstæðum og kjörum starfsmanna í málefnum fatlaðra sem nú er lakari en í öðrum sveitarfélögum.  Við fögnum því að komin sé fram öflug stefna um málefni fatlaðs fólks og að þar sé gert ráð fyrir að fatlað fólk geti fengið að NPA þjónustu. Hlutverk okkar á næsta kjörtímabili er að búa til aðgerðaráætlun og sjá til þess að stefnan endi í framkvæmd en ekki í skúffu bæjarstjórnar.

Margt er vel gert í málefnum eldra fólks. Við viljum efla samráð við Öldungaráðið og auka aðkomu notenda að þróa félagslíf og þjónustu við þennan ört stækkandi og fjölbreytta hóp okkar samfélagi.   Gæði þjónustu og stuðnings við aldraða á heimilum þeirra er eitt mikilvægasta verkefnið.

Samfylkingin vill koma á breiðara samstarfi skóla, heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem áhersla er á forvarnir og snemmtæka íhlutun.  Í því skyni viljum við koma á fót þverfaglegu stuðningsneti sem styður við einstaklinga í skóla, leik og starfi og að þjónusta við börn og foreldra verður samræmd á einum stað.  Markmiðið er að ekkert barn verði útundan og allir nái að blómstra á sínum forsendum.

Samfylkingin á Seltjarnarnesi vill búa til eitt samfélag fyrir alla á Seltjarnarnesi.

Sigurþóra Bergsdóttir, verkefnisstjóri og vinnusálfræðingur sem situr í öðru sæti Samfylkingar á Seltjarnarnesi.
Greinin birtist fyrst í Nesfréttum í maí