Bókanir og tillögur

Bæjarstjórn staðfestir 40% hækkun á launum bæjarstjóra

Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga lögðu fram á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar að laun bæjarstjóra yrðu aftengd úrskurðum kjararáðs og reiknuð út með sömu aðferð og laun bæjarfulltrúa. Bæjarfulltrúar aftengdu laun sín frá úrskurðum kjararáðs eftir að ráðið ætlaði að hækka laun þeirra um tæp 40 prósent haustið 2016. Bæjarstjóri fékk þó alla hækkunina í gegn enda með ráðningasamning út kjörtímabilið. Bæjarfulltrúar Samfylkingar lögðu til að í nýjum ráðningarsamningi bæjarstjóra væri notast við sömu aðferð og við útreikninga á launum bæjarfulltrúa en höfnuðu Sjálfstæðismenn tillögunni og staðfestu þar með 40% hækkun á launum bæjarstjóra.

Tillaga Samfylkingar Seltirninga á bæjarstjórnarfundi 18. júní 2018

Leggjum fram tillögu um að laun bæjarstjóra verði aftengd úrskurðum kjararáðs um kjör ráðuneytisstjóra og tengd við sömu hækkanir launavísitölu og laun bæjarfulltrúa. Laun bæjarstjóra verða þá reiknuð út frá sömu krónutölu og þau voru fyrir hækkun kjararáðs 16. júní 2016 og uppfærð út frá þróun launavísitölu frá þeim degi.

Laun ráðuneytisstjóra hækkuðu um 36-37% í úrskurði kjararáðs 16. júní 2016 sem var úr öllum takti við almennar launahækkanir og þær launahækkanir sem sveitarfélögin geta boðið sínu fagfólki sem heldur úti þjónustu sveitarfélagsins. Bæjarfulltrúar afþökkuðu hækkun kjararáðs og tóku upp þessa nýju útreikninga og engin rök fyrir því að bæjarstjóri geri það ekki líka.

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Samfylkingu Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir – Samfylkingu Seltirninga