Bókanir og tillögur

Skortur á framtíðarsýn og nauðsynlegum framkvæmdum

Posted on

Bókun vegna þriggja ára áætlunar Seltjarnarnesbæjar

Minnihlutinn hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins sé ítarleg og endurspegli framtíðarsýn og áherslur Seltjarnarnesbæjar um þjónustu og uppbyggingu.

Með þeirri þriggja ára fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir er engin tilraun gerð til að leggja mat á þarfir og þróun samfélagsins til næstu ára. Samkvæmt áætluninni á ekki að fjárfesta í eftirtöldum atriðum á kjörtímabilinu:
– Bætingu á umferðaröryggi
– Ferðamálastefnu og aðgerðum sem henni munu fylgja
– Bætingu almenningssamgangna, göngu- og hjólastíga
– Landvarsla á Vestursvæðunum
– Fjarlægja safnhauga á Vestursvæðum

Þetta eru aðeins þau atriðin úr Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa náð inn á fjárhagsáætlun kjörtímabilsins.

Við í minnihlutanum vildum að auki sjá:
– Endurbætur og endurnýjun á aðbúnaði í Grunnskóla Seltjarnarness
– Fjölgun á félagslegum íbúðum
– Endurbætur á félagsaðstöðu aldraðra
– Endurbætur á félagsheimilinu
– Að koma upp mælum á affall skólps sem rennur í fjörurnar á Seltjarnarnesi svo hægt séð upplýsa bæjarbúa um hvenær sjór er mengaður og hvenær fjörurnar eru örugg útivistarsvæði

Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Bókanir og tillögur

Öllum tillögum minnihlutans hafnað

Posted on

Tillaga um breytingar á fjárfestingum fyrir árið 2019

Tillaga Samfylkingar og Neslista/Viðreisnar um breytingar á fjárhagsáætlun fyrir árið 2019

Í núverandi áætlun er lagt til að 100 milljónir fari í byggingu íbúakjarna fyrir fólk með fötlun.  Við styðjum eindregið áætlanir um byggingu á íbúakjarna fyrir fatlaða en teljum miðað við stöðu verkefnis ekki raunhæft að hægt verði að eyða þessum fjármunum í bygginguna á næsta ári.  Staðarvali er ekki lokið, ekki ljóst hvort að aðal- og deiliskipulagi þurfi að breyta miðað við staðsetningu og í raun ansi margir óljósir þættir við verkefnið sem gerir mjög ólíklegt að það komist svo vel af stað á næsta ári. Nefna má að árið 2018 voru teknar frá 125 milljónir í verkefnið sem ekki hafa verið notaðar.

Við leggjum því til að áætlaðar verði 70 milljónir í verkefnið árið 2019 sem ætti að koma því vel af stað þegar skipulagsvinnu lýkur. Við leggjum svo til að það 30 milljón króna svigrúm sem skapast verður nýtt til að bæta gæði þjónustu bæjarins og ráðast í nauðsynlegt viðhald.

Tillögur:

  1. Breyta fjárfestingu í Sérbýli fyrir fatlað fólk úr 100.000.000 í 70.000.000kr
  2. Setja 5.000.000 í viðhald og endurbætur á Sæbraut 2. Það þarf að klára að setja klæðningu og mála húsið að utan. Laga rakaskemmdir í útveggjum og lofti. Laga ofna, vaska, sprungur í veggjum ásamt ýmsum öðrum smáverkum.
  3. Setja 10.000.000 kr í endurnýjun á húsgögnum í Grunnskóla Seltjarnarness eins og skólastjóri hafði óskað eftir til að hefja nauðsynlega endurnýjun á innviðum í kennslustofum.
  4. Setja 5.000.000 kr í endurnýjun á Félagsheimili Seltjarnarness. Nú stendur yfir stefnumótun um félagsheimili Seltjarnarness og framtíðar rekstrarfyrirkomulag hússins. Það liggur þó fyrir að sama hvaða leið verður farin þarf að ráðast í nauðsynlegt viðhald og endurbætur.
  5. Setja 10.000.000 í félagsaðstöðu aldraðra við Skólabraut. Á næsta ári verður nýtt hjúkrunarheimili með dagvistunarrýmum tekið í notkun og við það flyst dagvistunin á Skólabraut og skapast kjörið tækifæri til að koma loksins upp almennilegri félagsmiðstöð eldri borgara á Seltjarnarnesi með því að breyta núverandi dagvistun í félagsaðstöðu. Einnig þarf að að endurgera púttvöll eldri borgara sem skemmdist við framkvæmdir á íþróttahúsinu en búið er að óska eftir að hann verði upphitaður með gervigrasi svo hægt sé að nýta hann allt árið um kring. Einnig þarf að endurnýja handrið, innviði, tæki og tól.

Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Bókanir og tillögur

Rekstur í járnum. Hvers vegna?

Posted on

Bókun N og S lista um fjárhagsáætlun Seltjarnarnessbæjar fyrir árið 2019

Rekstur í járnum. Hvers vegna?

Við lestur fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2019 er fyrst og fremst áberandi hversu naumur fjárhagur bæjarins er. Afgangur bæjarsjóðs er áætlaður um 22 milljónir króna, sem nemur um hálfu prósenti af heildarútgjöldum bæjarins. Ljóst er að ekki má mikið útaf bera til að reksturinn verði neikvæður og skuldasöfnun bæjarsjóðs haldi áfram.

Við skoðun áætlunarinnar verður ljóst að ekki er fyrirséð að bærinn sinni á árinu 2019 eðlilegu viðhaldi á eignum sínum, bærinn hækkar allar gjaldskrár á bæjarbúa svo sem leikskólagjöld, gjöld fyrir frístundastarf, heimaþjónustu og tómstundastarf aldraðra. Raunlækkun er til félagsmála milli ára þrátt fyrir aukna þjónustuþörf og upplýsingar frá félagsmálastjóra um að þörf hefði verið að hækka útgjöld til málaflokksins milli ára.

Það stingur einnig í stúf hversu lítið af þeim fjárfestingum sem settar voru inn í áætlun 2018 hafa verið framkvæmdar og birtast þær nú aftur fyrir árið 2019. Árið 2018 voru áætlaðar 125 milljónir í byggingu sérbýlis fyrir fatlað fólk sem ekki eru hafin. Nú eru settar 100.000.000 í verkefnið án þess að búið sé að taka endanlega ákvörðun um staðsetningu og ljúka skipulagi fyrir verkefnið. Viðhald á klæðningu Mýrarhúsaskóla var á áætlun 2018 60 milljónir en birtist nú aftur fyrir árið 2019 sem 50 milljónir.

Eðlilegt er að spurt sé hvernig standi á því að rekstur bæjarfélagsins sé svo naumur, nú þegar efnahagsuppsveifla hefur verið viðvarandi í landinu undanfarin sjö ár?

Til að allrar sanngirni sé gætt, er rétt að hafa á því orð að bærinn er að fara í gegn um sögulegt breytingartímabil. Barnafjölskyldum hefur fjölgað mikið í bænum undanfarið og því fylgja vaxtarverkir fyrir sveitarfélög. Þannig hækka framlög til fræðslumála um rúmar 300 milljónir, sem mikið til er tilkomið vegna fjölgunar barna.

Þetta ástand sem bæjarstjórn horfist nú í augu við er tilkomið vegna fyrirhyggjuleysis. Bæjarstjórn hefði mátt vera ljóst þegar árið 2014 að framundan væri mikil fjölgun barnafólks. Þá þegar hefði þurft að gera ráðstafanir til þess að undirbúa þessa fjölgun, með nauðsynlegum áformum.

Meirihluta bæjarstjórnar, sem verið hefur sá sami frá miðri síðustu öld, hefur skort framtíðarsýn og fyrirhyggju til að viðhalda því þjónustustigi sem fólk sem býr í bænum gerir ráð fyrir.

Á kjörtímabilinu má búast við því að Seltjarnarnes verði svo að segja fullbyggt. Áframhaldandi andvara- og fyrirhyggjuleysi má ekki vera leiðarstef komandi ára. Bærinn verður að vinna áætlanir sínar um uppbyggingu þjónustu fyrir þann fjölda fólks sem mun að lokum byggja bæinn af kostgæfni og yfirvegun. Áframhaldandi lausatök og áberandi vandræðagangur verður ekki bæjarbúum til heilla.

Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Bókanir og tillögur

Samfylking Seltirninga leggst gegn sölu á Lækningaminjasafninu

Posted on

Bókun Samfylkingar Seltirninga sölu á Lækningaminjasafninu

Samfylkingin Seltirninga ítrekar fyrri bókun og afstöðu varðandi sölu á Lækningaminjasafninu. Húsið hefur alla burði til þess að verða stolt og prýði bæjarins. Við leggjumst gegn því að húseignin verði seld til þriðja aðila. Það er okkar skoðun að bærinn eigi að eiga húsið og leigja undir skilyrtan rekstur. Þar mætti sameina safn, veitingasölu, upplýsingamiðlun til ferðamanna og aðra þjónustutengda starfsemi. Hefur húsið á síðustu árum hýst marga merka menningarviðburði og þegar stimplað sig inn sem fyrsta flokks viðburðastaður á höfuðborgarsvæðinu.

Við styðjum það að unnið verði verðmat á húseigninni. Við leggjum ennfremur til að unnið verði nýtt mat á aðgerðum og kostnaði sem þarf til að koma húsinu í lag. Til viðbótar að framkvæmt verði mat á því hvaða menningarlegu, félagslegu og hagrænu áhrif full starfsemi í Læknaminjasafninu og á safnasvæðinu í heild, hefði á bæinn og samfélagið.

Við teljum einnig að Lækningaminjasafnshúsið geti verið hornsteinn í gerð ferðamálastefnu og uppbyggingu þjónustu við íbúa og ferðamenn þar sem saman koma fleiri hús á svæðinu svo sem Nesstofa og Lyfjasafnið en saman mynda þessi hús sérstöðu í safnaflórunni á landsvísu.

Guðmundur Ari Sigurjónsson- Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

 

Bókanir og tillögur

Tryggjum þjónustu við íbúa bæjarins

Posted on

Samfylking Seltirninga leggur áherslu á að Seltjarnarnesbær gangi til samninga við ríkið um að taka yfir þjónustu við íbúa á Bjargi á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólk nr. 38/2018 sem tóku gildi 1. október síðastliðinn. Þar er skýrt kveðið á um að fatlaðir eigi rétt á þjónustu þar sem hver kýs að búa og á lögheimili. Við teljum einsýnt að ráðuneyti munu telja Seltjarnarnes bera skyldu til að sjá um þjónustu íbúa Bjargs enda eru þeir með lögheimili á Seltjarnarnesi. Það er því betra að vinna málið í samvinnu frekar en að lenda í lagadeilum með ófyrirséðum afleiðingum fyrir þessa íbúa okkar góða sveitafélags.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Þorleifur Örn Gunnarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga