Fundargerð

Aðalfundur 2020

Posted on

Aðalfundur félagsins haldinn í bókasafni Valhúsaskóla 25. febrúar 2020 var settur kl. 19.35. Gengið var til aðalfundarstarfa samkvæmt lögum félagsins. Gestur fundarins var Logi Einarsson form. Samfylkingar-innar.

Fundarstjóri var kjörinn Guðmundur Ari Sigurjónsson,

Fundarritari Stefán Bergmann.

Reikningar. Gjaldkeri félagsins Magnús Dalberg lagði fram og kynnti reikninga félagsins. Aðal tekjustofn þess er framlag bæjarstjórnar til félagsins. Reikningar voru samþykktir samhljóða.

Lagabreytingar. Engar tillögur um lagabreytingar lágu fyrir.

Skýrsla stjórnar. Formaður félagsins Sigurþóra Bergsdóttir flutti skýrslu stjórnar. Hún rakti gang mála síðastliðið ár í bæjarfélaginu og starf félagsins. Framundan eru stór verkefni á vegum Seltjarnarnesbæjar í kjölfar úttektar á stjórnsýslu, rekstri og hag bæjarins og samþykktar nýs skipurits fyrir hann. Formaður lýsti aðkomu  bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar að málum. Reglulegir bæjarmálafundir hafa verið haldnir á vegum stjórnar með bæjarfulltrúum og fulltrúum í fagnefndum. Tekin hefur verið upp teymisvinna fulltrúa í nefndum um tengd málefni þvert á nefndir. Sótt var um styrk til Samylkingarinnar- Máttarstoðasjóðs til eflingar félagsstarfs sem fékkst og er stefnt að opnum fundum í vor. Þorleifur Örn Gunnarsson fyrsti varabæjarfulltrúi lætur nú af störfum vegna brottflutnings og tekur Karen María Jónsdóttir við. Félagið þakkar Þorleifi frábær störf. Umræður urðu einkum um hina nýju stöðu í bæjarmálum Seltjarnarness og verkefnin framundan.

Kosning stjórnar. Samþykkt var eftirfarandi skipan nýrrar stjórnar.

Formaður: Sigurþóra Bergsdóttir. Varaformaður: Guðmundur Ari Sigurjónsson. Gjaldkeri: Magnús Dalberg, Meðstjórnendur: Karen María Jónsdóttir, Hildur Ólafsdóttir,Helga Charlotte Reynisdóttir. Varamaður: Sigurður Þór Jónsson. Skoðunarmenn reikninga: Stefán Bergmann og Árni Emil Bjarnason.

Fleira var ekki gert. Fundi slitið kl.20.00. Fundargestir voru 23.

Við tók opinn fundur um menntamál-  Menntun og tækifæri.

Bókanir og tillögur

Fjárhagsáætlun kyrrstöðu og niðurskurðar

Posted on

Bókun Samfylkingar Seltirninga við samþykkt fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020.

Sú fjárhagsáætlun sem lögð er hér fram gerir ráð fyrir algjörri kyrrstöðu, niðurskurði á öllum sviðum og þjónustuskerðingum við íbúa bæjarins. Þrátt fyrir þessar aðgerðir gerir áætlunin aðeins ráð fyrir að afgangur A-sjóðs nemi 292 þúsund krónum. Það er því ljóst að það má ekkert út af bregða til þess að bæjarsjóður heldur áfram hallarekstri sínum sem hefur numið hundruðum milljóna króna síðastliðin ár. Talsverð óvissa ríkir einnig þar sem að kjarasamningar við flest öll stéttarfélög eru lausir og hefði því verið mikilvægt að hafa svigrúm í rekstri bæjarins. Þegar tillagan er svo rýnd og borin saman við rekstur síðastliðinna ára má finna liði þar sem að tekjur eru ofáætlaðar og fjárútlát vanáætluð svo gera má ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri bæjarins þrátt fyrir þjónustuskerðingar. 

Það er dýrt að reka lítið sveitarfélag með fyrsta flokks þjónustu en það er enga síður það loforð sem stjórnmálamenn gáfu fyrir kosningar og það er sú krafa sem bæjarbúar gera á bæinn. Sveitarfélagið hefur síðastliðin ár staðið í miklum framkvæmdum og eru stórar framkvæmdir eins og bygging nýs leikskóla framundan. Skuldir bæjarins hafa margfaldast með tilheyrandi vaxtakostnaði og ekkert er í kortunum sem sýnir fram á að svigrúm verði til þess að greiða niður skuldir eða leggja til hliðar fjármuni fyrir þeim nauðsynlegum viðhalds- og nýframkvæmdum sem framundan eru. 

Með áframhaldandi hallarekstri og skuldsetningu bæjarins er skattbyrði bæjarbúa ýtt fram í tíman með vöxtum og því hefur Samfylking Seltirninga lagt áherslu á það á vinnufundum fjárhagsáætlunar að færa útsvarið í 14.48% sem er sama prósenta og Kópavogur, Hafnarfjörður og Mosfellsbær innheimta. Með þessari breytingu myndu tekjur bæjarins hækka um tæplega 170 milljónir sem hægt væri að nýta til þess að borga niður skuldir, setja í fjármögnun á þeim framkvæmdum sem eru á dagskrá eða til þess að koma í veg fyrir niðurskurð í félagsþjónustu bæjarins, hjá leikskólunum, í grunnskólanum, tónlistarskólanum, frístundarstarfinu og í félagslega kerfinu svo nokkur dæmi séu tekin. Það er óábyrgt af sveitarstjórn að leggja fram enn eina áætlunina sem mun enda með hallarekstri og það er auk þess farið að bitna verulega á þeirri þjónustu sem að bærinn veitir íbúum sínum og getu hans til þess að standa jafns við þá framþróun sem er að eiga sér stað í sveitarfélögunum í kringum okkur. 

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Fréttir

Samfylking Seltirninga lýsir yfir fullum stuðningi við Grunnskóla Seltjarnarness

Posted on

Undirritaðir fulltrúar Samfylkingar Seltirninga harma framgöngu stjórnmálamanna í opinberri gagnrýnni sinni á Grunnskóla Seltjarnarness og lýsa yfir fullu trausti á skólann og stjórnendur hans. Þau orð sem fallið hafa um að skólinn fái falleinkunn og að kennarar í Grunnskóla Seltjarnarness hvetji hvorki né styðji við nám barna á Seltjarnarnesi eiga við engin rök að styðjast. 

Sá ágreiningur sem upp kom við útskrift 10. bekkinga vorið 2019 er í skýru ferli innan bæjarins og skólans og hafa kennarar og skólastjórnendur unnið hörðum höndum að því að bæta ferla og auka gagnsæi námsmats í kjölfar ábendinga. Það er ljóst að það voru atriði í námsmatinu sem þörf var á að uppfæra og að skólinn hafði getað mætt ábendingum foreldra fyrr. Bleiki fíllinn í málinu er þó sá hversu illa ráðuneyti menntamála hefur fylgt nýju námsmati eftir og hafa hvorki kennarar fengið nægilegan aðlögunartíma né sveitarfélög fengið greiðslur til að borga fyrir þær þúsundir vinnustunda sem farið hafa í að túlka nýja námsskrá og seinna nýtt námsmat. Allir kennarar landsins vinna við að leysa þrautina í stað þess að fá skýr fyrirmæli og njóta aðstoðar sérfræðinga sem styðja við innleiðinguna.

Það hefur verið illa haldið utan um þetta mál eftir að það komst á borð stjórnmálamanna og hefur það bitnað á öflugum kennarahópi Grunnskóla Seltjarnarness og því góða starfi sem þar er unnið. Nú hefst vinna við að ná sáttum, draga lærdóm og halda áfram að þróa öflugt skólastarf á Seltjarnarnesi í sátt og samstarfi kennara, nemenda, foreldra og stjórnenda bæjarins.

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi
Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi
Hildur Ólafsdóttir – Fulltrúi XS í skólanefnd

Bókanir og tillögur

Hallarekstur að verða regla frekar en undantekningu hjá meirihluta Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi.

Posted on

Það er grafalvarleg staða sem Seltjarnanesbær stendur nú frammi fyrir en bærinn hefur á síðastliðnum tveimur árum skilað rúmlega 400 milljón króna tapi og aukið skuldir sveitarfélagsins um tæplega 3 milljarða. Á hálfsárs uppgjöri bæjarins sést að hallareksturinn heldur áfram og hefur bæjarsjóður safnað um 160 milljón króna tapi á fyrstu 6 mánuðum ársins.

Þegar sveitarfélag er rekið með halla er auðvelt að benda á einstök atriði til að afsaka hallareksturinn en þegar öllu er á botninn hvolft hvílir ábyrgðin hjá þeim meirihluta sem setur fram áætlanir og stýrir rekstri bæjarins. Hallarekstur sem þessi er að verða að reglu frekar en undantekningu hjá meirihluta Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi.

Við í minnihlutanum höfum ár eftir ár kallað eftir og bókað að sveitarfélagið þurfi að vinna ítarlegar greiningar þegar þriggja ára fjárhagsáætlanir bæjarins eru gerðar en hingað til hefur meirihlutinn aðeins framreiknað reksturinn án greiningarvinnu á íbúasamsetningu bæjarins, þjónustuþörf eða raunhæfri framkvæmdaáætlun. 

Ég vil með leyfi forseta vísa í bókun Samfylkingarinnar frá árinu 2012 við samþykkt þriggja ára áætlunar en þar stendur:

“Á undanförnum árum höfum við tekist á við breyttar forsendur í rekstri bæjarins og lifað af óvissutíma. Nú virðist vera að birta til og því komnar forsendur fyrir því að teikna upp framtíðarsýn fyrir Seltjarnarnesbæ.

Þessa sýn vantar inn í áætlun fyrir 2014-2016. Áætlun aðalsjóðar er eingöngu framreikningur á áætlun 2013. Ekki hefur verið unnin grunnvinna við að meta hvort breytingar verði á samsetningu íbúa næstu árin, til dæmis hvort nýjar byggingaframkvæmdir sem áætlaðar eru munu hafa áhrif og í kjölfarið hvort hugsanlega megi sjá fyrir breytingar á þjónustuþörf bæjarbúa.”

Inntak þessarar bókunar hefur svo verið síendurtekið árlega síðastliðin 7 ár en meirihlutinn hefur ekki hlustað. Greiningarvinna sem þessi er nauðsynleg svo bæjarstjórn geti tekið upplýstar ákvarðanir þegar kemur að fjárhagsáætlanagerð og tekið ákvarðanir um fjárfestingar ef bærinn ætlar að ná sér réttu meginn við núllið.

Nú 11. september erum við að ræða hálfs árs uppgjör bæjarins en meirihlutinn hefur ekki enn lagt fram nein drög að heildstæðri endurskoðun á fjárhagsáætlun eða hvernig sveitarfélagið hyggst mæta hallarekstri ársins með viðaukum eða aðgerðum.

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

Sigurþóra Bergsdóttir – Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

 

Bókanir og tillögur

Skortur á framtíðarsýn og nauðsynlegum framkvæmdum

Posted on

Bókun vegna þriggja ára áætlunar Seltjarnarnesbæjar

Minnihlutinn hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins sé ítarleg og endurspegli framtíðarsýn og áherslur Seltjarnarnesbæjar um þjónustu og uppbyggingu.

Með þeirri þriggja ára fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir er engin tilraun gerð til að leggja mat á þarfir og þróun samfélagsins til næstu ára. Samkvæmt áætluninni á ekki að fjárfesta í eftirtöldum atriðum á kjörtímabilinu:
– Bætingu á umferðaröryggi
– Ferðamálastefnu og aðgerðum sem henni munu fylgja
– Bætingu almenningssamgangna, göngu- og hjólastíga
– Landvarsla á Vestursvæðunum
– Fjarlægja safnhauga á Vestursvæðum

Þetta eru aðeins þau atriðin úr Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa náð inn á fjárhagsáætlun kjörtímabilsins.

Við í minnihlutanum vildum að auki sjá:
– Endurbætur og endurnýjun á aðbúnaði í Grunnskóla Seltjarnarness
– Fjölgun á félagslegum íbúðum
– Endurbætur á félagsaðstöðu aldraðra
– Endurbætur á félagsheimilinu
– Að koma upp mælum á affall skólps sem rennur í fjörurnar á Seltjarnarnesi svo hægt séð upplýsa bæjarbúa um hvenær sjór er mengaður og hvenær fjörurnar eru örugg útivistarsvæði

Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga