Bókanir og tillögur

Tryggjum þjónustu við íbúa bæjarins

Posted on

Samfylking Seltirninga leggur áherslu á að Seltjarnarnesbær gangi til samninga við ríkið um að taka yfir þjónustu við íbúa á Bjargi á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólk nr. 38/2018 sem tóku gildi 1. október síðastliðinn. Þar er skýrt kveðið á um að fatlaðir eigi rétt á þjónustu þar sem hver kýs að búa og á lögheimili. Við teljum einsýnt að ráðuneyti munu telja Seltjarnarnes bera skyldu til að sjá um þjónustu íbúa Bjargs enda eru þeir með lögheimili á Seltjarnarnesi. Það er því betra að vinna málið í samvinnu frekar en að lenda í lagadeilum með ófyrirséðum afleiðingum fyrir þessa íbúa okkar góða sveitafélags.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Þorleifur Örn Gunnarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

 

Fréttir

Stöndum við bakið á öllum íbúum Seltjarnarnesbæjar!

Posted on

Samfylkingarfélagið á Seltjarnarnesi harmar hvernig staðið hefur verið að málum íbúa Bjargs af bæjarstjóra og meirihluta Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi.  Það er okkar mat að afstaða meirihlutans endurspegli ekki afstöðu íbúa Seltjarnarness, enda hafa margir kommentað á þetta mál á íbúasíðu Seltjarnarness svo og í samtölum við okkur.

Við berum lagalega skyldu til að sinna þjónustu við þennan hóp íbúa okkar, þar að auki er Seltjarnarnes stöndugt sveitafélag sem er í lófa lagið að leysa málið farsællega.  Sú lausn er reyndar til staðar og hefur verið sett fram af Velferðarráðuneytinu og myndi gera íbúum Bjargs kleift að búa þar áfram í öruggum aðstæðum.

Við teljum að allt þetta mál sé til þess fallið að valda íbúm Bjargs, miklu álagi og angist – það vill enginn vera í óvissu um framtíð sína.

Við teljum einnig mjög alvarlegt að þetta mál sé komið á borð Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis sem vanræksla bæjarins okkar í að uppfylla skyldur sínar.

Bókanir og tillögur

Bæjarstjórn staðfestir 40% hækkun á launum bæjarstjóra

Posted on

Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga lögðu fram á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar að laun bæjarstjóra yrðu aftengd úrskurðum kjararáðs og reiknuð út með sömu aðferð og laun bæjarfulltrúa. Bæjarfulltrúar aftengdu laun sín frá úrskurðum kjararáðs eftir að ráðið ætlaði að hækka laun þeirra um tæp 40 prósent haustið 2016. Bæjarstjóri fékk þó alla hækkunina í gegn enda með ráðningasamning út kjörtímabilið. Bæjarfulltrúar Samfylkingar lögðu til að í nýjum ráðningarsamningi bæjarstjóra væri notast við sömu aðferð og við útreikninga á launum bæjarfulltrúa en höfnuðu Sjálfstæðismenn tillögunni og staðfestu þar með 40% hækkun á launum bæjarstjóra.

Tillaga Samfylkingar Seltirninga á bæjarstjórnarfundi 18. júní 2018

Leggjum fram tillögu um að laun bæjarstjóra verði aftengd úrskurðum kjararáðs um kjör ráðuneytisstjóra og tengd við sömu hækkanir launavísitölu og laun bæjarfulltrúa. Laun bæjarstjóra verða þá reiknuð út frá sömu krónutölu og þau voru fyrir hækkun kjararáðs 16. júní 2016 og uppfærð út frá þróun launavísitölu frá þeim degi.

Laun ráðuneytisstjóra hækkuðu um 36-37% í úrskurði kjararáðs 16. júní 2016 sem var úr öllum takti við almennar launahækkanir og þær launahækkanir sem sveitarfélögin geta boðið sínu fagfólki sem heldur úti þjónustu sveitarfélagsins. Bæjarfulltrúar afþökkuðu hækkun kjararáðs og tóku upp þessa nýju útreikninga og engin rök fyrir því að bæjarstjóri geri það ekki líka.

Guðmundur Ari Sigurjónsson – Samfylkingu Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir – Samfylkingu Seltirninga

 

Greinar

Eitt samfélag fyrir alla

Posted on
2. sæti – Sigurþóra Bergsdóttir, verkefnastjóri

Innviðir okkar á Seltjarnarnesi eru sterkir, við erum lítið samfélag þar sem við getum haldið utan um alla og boðið þéttriðið öryggisnet þar sem enginn lendir útundan. Velferðarþjónustan okkar gegnir mikilvægu hlutverki í að tryggja netið gagnvart ólíkum hópum.  Samfylkingin leggur áherslu á að velferðarþjónustan okkar miði að þörfum fólks, að þjónustan sé fyrir fólk en ekki kerfi.  Við höfum lagt áherslu á félagslegt húsnæði á þessu kjörtímabili og komum því loks til leiðar að hægt væri að skrá sig á biðlista eftir húsnæði sem áður var ekki hægt.  Við teljum nauðsynlegt að fjölga félagslegum íbúðum til að þeir sem það þurfa fái húsaskjól.

Það eru mörg verkefni sem við hjá Samfylkingunni viljum fara í af krafti.  Á þessu kjörtímabili tók Seltjarnarnes yfir málefni fatlaðra. Byggja þarf sérhæft húsnæði fyrir fatlað fólk en einnig þarf að huga að aðstæðum og kjörum starfsmanna í málefnum fatlaðra sem nú er lakari en í öðrum sveitarfélögum.  Við fögnum því að komin sé fram öflug stefna um málefni fatlaðs fólks og að þar sé gert ráð fyrir að fatlað fólk geti fengið að NPA þjónustu. Hlutverk okkar á næsta kjörtímabili er að búa til aðgerðaráætlun og sjá til þess að stefnan endi í framkvæmd en ekki í skúffu bæjarstjórnar.

Margt er vel gert í málefnum eldra fólks. Við viljum efla samráð við Öldungaráðið og auka aðkomu notenda að þróa félagslíf og þjónustu við þennan ört stækkandi og fjölbreytta hóp okkar samfélagi.   Gæði þjónustu og stuðnings við aldraða á heimilum þeirra er eitt mikilvægasta verkefnið.

Samfylkingin vill koma á breiðara samstarfi skóla, heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem áhersla er á forvarnir og snemmtæka íhlutun.  Í því skyni viljum við koma á fót þverfaglegu stuðningsneti sem styður við einstaklinga í skóla, leik og starfi og að þjónusta við börn og foreldra verður samræmd á einum stað.  Markmiðið er að ekkert barn verði útundan og allir nái að blómstra á sínum forsendum.

Samfylkingin á Seltjarnarnesi vill búa til eitt samfélag fyrir alla á Seltjarnarnesi.

Sigurþóra Bergsdóttir, verkefnisstjóri og vinnusálfræðingur sem situr í öðru sæti Samfylkingar á Seltjarnarnesi.
Greinin birtist fyrst í Nesfréttum í maí

 

Viðtöl

Það skiptir máli að horfa til framtíðar

Posted on

Margrét Lind Ólafsdóttir hefur setið tvö kjörtímabil sem oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Seltjarnarness. Hún hefur nú ákveðið að taka sér hlé sem bæjarfulltrúi en hún skipar 14. sæti lista Samfylkingar Seltjarnarness. 

Margrét á góðri stundu á Kúbu

Bæjarstjórnarstarfið er fjölbreytt og krefjandi starf og mér sem bæjarfulltrúa finnst skipta máli að reyna að setja mig inn í öll þau verkefni og málefni sem snúa að bæjarfélaginu með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Þjónustan við bæjarbúa skiptir máli og þá er ég að tala um þjónustu við alla. Það eru ýmis málefni sem við höfum unnið að og ég er ákaflega ánægð með. T.d. var horfið frá því að byggja raðhús við Suðurmýrina og í stað þess byggðar minni íbúðir sem mikil þörf er á og við í Samfylkingunni höfum barist fyrir. Við höfum haldið því á lofti allt kjörímabilið hversu miklu máli skiptir að við vöndum okkur í skipulagsmálum og hugsum til framtíðar.

Þá er vefurinn Nesið okkar þar sem bæjarbúum gefst kostur á að senda inn hugmyndir um verkefni annað dæmi um afrakstur góðrar vinnu í bæjarstjórn. Íbúarkosning um svona málefni hefur verið á stefnuskrá okkar síðustu tvö kjörtímabil og gleðilegt að sjá þetta verða að veruleika. Samstarf meiri- og minnihluta hefur verið gott um um ýmis málefni enda bæjarmálefnin þess eðlis að við erum að vinna að sameiginlegum hagsmunum bæjarbúa. Ég er ekki fyrir átakapólitík, ég held að hún skili ekki miklu en þó er sumt sem eðlilega skilur okkur að og áherslur okkar ólíkar.

Þurfum framtíðarsýn til að vinna eftir
Það er gott að búa á Seltjarnarnesi og það er einstaklega barnvænt samfélag en það þarf einnig að hlúa að innviðunum bæði hvað varðar aðbúnað starfsmanna sem og barnanna. Skólarnir og leikskólarnir eiga að vera eftirsóttir vinnustaðir þar sem starfsfólk er metið að verðleikum og öll umgjörð á að vera til fyrirmyndar, þar meðtalinn tækja- og húsnæðiskostur. En það er því miður ekki svo. Það skiptir máli að horfa til framtíðar og vera með langtímaáætlun í málaflokkunum þannig að við séum stöðugt að þróa og bæta þjónustu, séum að bregðast við breytingum og að hlutirnir komi ekki aftan að okkur.
Það sem mér finnst gagnrýnivert er skortur á framtíðarsýn hjá meirihlutanum þegar kemur að málefnum bæjarins. Að það sé horft til framtíðar en ekki bara næsta árs. Við höfum margoft bent á þetta í minnihlutanum m.a. í fjárhagsáætlanagerð. Þetta kemur svo berlega í ljós núna varðandi leikskólamálin. Margar skýrslur hafa verið unnar en lítið um framkvæmdir og virðist sem húsnæðisskortur komi meirihlutanum í opna skjöldu. Þá má einnig nefna að húsnæðisvandræði Áhaldahússins væru ekki til staðar ef það hefði verið hugsað til framtíðar – með langtímalausn að leiðarljósi en ekki plástra hér og þar.
Þetta á einnig við um þjónustu við aldraða. Það hefur hvorki gengið né rekið að bæta aðstöðu fyrir félagsstarf eldri borgara í mörg ár sem er mjög bagalegt og óboðlegt fyrir þennan hóp.

Ef Seltjarnes ætlar að taka sig alvarlega sem alvöru sveitarfélag – þarf það að girða sig í brók
Ég hef orðið þess svo áskynja í mínu starfi sem bæjarfulltrúi að það er ekki öllum málefnum bæjarins gert jafnt hátt undir höfði og þykir ekkert tiltökumál að reyna ekki að leysa þau. Ef við ætlum að vera bæjarfélag sem stendur undir þjónustu við alla bæjarbúa þurfum við að taka okkur á. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á áhuga- og viljaleysi sjálfstæðismanna t.d. þegar kemur að félagslegu húsnæði. Í þau átta ár sem ég hef setið í bæjarstjórn hefur sorglega lítið gerst. Það er lítill metnaður og virðist enginn skilningur á uppbyggingu á félagslegu húsnæði og þörfinni fyrir því. Þvert á móti eru íbúðir seldar, loforð um kaup á íbúðum svikin og þeim illa viðhaldið. Fagleg vinnubrögð hafa verið af skornum skammti og erfitt reyndist fyrir einstaklinga að sækja um félagslegt húsnæði, upplýsingar villandi og óaðgengilegar. Sem betur fer hefur umsóknarferlið lagast en það er að sjálfsögðu engan veginn nóg. Þeir sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda er viðkvæmur hópur sem er í neyð. Það geta allir lent í því að þurfa að leita sér aðstoðar einhverntímann á ævinni og mörgum reynist það erfitt. Það á að hlúa og styðja þenna hóp eins og kostur er, en svo er ekki rauninn. Það er ekki hægt að fela sig bak við það að húsnæði sé af skornum skammti hér á Seltjarnarnesi. Ef það var hægt að kaupa eitt stykki Ráðagerði fyrir hundrað milljónir er algjörlega óskiljanlegt að ekki hefur verið hægt að kaupa íbúðir undir félagslegt húsnæði. Þessi forgangsröðun á fjármagni og sýn Sjálfstæðisflokksins er dapurleg. Ég veit að þetta er ekki vinsælt kosningarmál en ef við ætlum að taka okkur alvarlega sem alvöru sveitarfélag þá verðum við að taka okkur á varðandi þjónustu við íbúa og þá meina ég alla íbúa, einnig þá sem standa höllum fæti.

Málefni fatlaðra eiga eftir að vega þungt á næsta kjörtímabili

Margrét ásamt fjölskyldu sinni en sonur hennar, Tómas Gauti, skipar einmitt 9. sæti framboðslista Samflykingar Seltjarnarness

Miðað við reynsluna af því hvernig staðið er að velferðarmálum hef ég miklar áhyggjur af málefnum fatlaðra og í hvaða farveg þau eru. Við verðum að átta okkur á því að við sinnum lögbundinni þjónustu við fatlað fólk og það eigum við að gera með sóma. Húsnæðismál fatlaðra þarf að leysa hratt og örugglega. Byggja þarf upp faglega einstaklingsmiðaða þjónustu við þennan hóp. En þá þurfa innviðirnir okkar að vera í lagi. Við verðum að bjóða upp á samkeppnishæft umhverfi þannig að einstaklingar vilji starfa í þessum málaflokki í bæjarfélaginu. Málefni fatlaðra munu vega þungt á næstu árum og tel ég skipta gríðarlega miklu máli að við vöndum okkur.

Umhverfismálin skipta okkur öll miklu máli, hvernig við göngum um náttúruru landsins og tökum tillit til hennar. Seltjarnarnes er þar ekkert undanskilinn. Þess vegna skiptir svo miklu máli þegar farið er í aðgerðir eins og grjótflutninga í fjöru, haugsetningar ofl. að það sé ávallt náttúruran sem njóti vafans. Þá er flokkun sorps framtíðarmál og tel ég við á Seltjarnarnesi eigum að ganga alla leið og flokka allt okkar sorp

Að sitja tvö kjörtímabil sem oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn er búið að vera lærdómsríkt og gefandi en þetta orðið gott í bili segir Margrét Lind Ólafsdóttir um setu sína í bæjarstjórn.